Myndi aldrei fara bara í eitthvað

Inga í leðurjakka og með sólgleraugu frá Victoriu Beckham.
Inga í leðurjakka og með sólgleraugu frá Victoriu Beckham. mbl.is/Hanna

Ingibjörg Örlygsdóttir rak skemmtistaðinn Nasa við Austurvöll um árabil. Nú er hún aðstoðarmaður skærustu poppstjörnu Íslands og lifir sykurhúðuðu glamúrlífi þar sem hún fylgir poppstjörnunni Páli Óskari eftir hvert fótmál á milli þess sem hún skipuleggur líf hans. 

Inga, eins og hún er kölluð, elskar að klæða sig í falleg föt og í hennar huga skiptir engu máli hvaðan fötin koma. Hún segist heldur ekki hafa neinn sérstakan stíl því það fari eftir tónlistinni sem hún hlustar á hvernig hún klæðir sig eða bara eftir dagsforminu – sem er yfirleitt mjög gott.
Hér er Inga ásamt Páli Óskari.
Hér er Inga ásamt Páli Óskari.

Inga stóð vaktina á skemmtistaðnum Nasa eins og herforingi. Hún raðaði sjálf bjórnum í kælinn svo honum yrði örugglega raðað rétt og stóð vaktina 24/7. Og hún var heldur ekkert sveitt í jogginggalla á bak við barinn heldur alltaf eins og drottning til fara – sama hvað var í gangi. Í dag vinnur hún með poppstjörnunni Páli Óskari, bókar gigg og skipuleggur líf hans. Auk þess er hún í hlutastarfi í versluninni Evu við Laugaveg.

„Ég sakna Nasa á hverjum einasta degi. Það átti mjög vel við mig að reka þann stað. Ég gerði þetta af ástríðu þótt þetta væri bisness. Ég klæddi mig til dæmis alltaf upp í takt við þá tónlist sem var í húsinu hverju sinni. Á Airwaves var ég til dæmis alltaf með fimm kvölddress og fimm dagdress klár fyrir fram. Það voru margir hissa á að ég nennti að standa í þessu. Þetta var bara hluti af því að opna klúbbinn, að klæða sig upp,“ segir Inga.

Er ekkert inni í myndinni að opna skemmtistað á ný?

„Það er alltaf inni í myndinni. Ég er opin fyrir öllu en það eru ekki mörg flott húsnæði í boði, allavega ekki eins og Nasa var. Það að vinna með Palla gerir mikið fyrir mig því ég elska þennan skemmtanaheim,“ segir hún.

Djammið hjá Ingu snýst þó ekki um drykkju eða neitt slíkt því sjálf hefur hún varla smakkað það.

„Ég drekk ekki áfengi. Djammið snýst ekki um áfengisneyslu hjá mér en mér finnst gaman að vera innan um drukkið fólk þótt ég drekki ekki sjálf. Ég á miklu erfiðara með neyslu á orkudrykkjum, ég gæti drukkið 20 orkudrykki á dag og dælt í mig espresso ef ég kærði mig um það. En áfengi hefur aldrei verið fyrir mig. Ég hef smakkað það og fannst áhrifin hræðileg. Ég er kontrólfrík og mikil öfgamanneskja. Ef ég hefði byrjað að drekka hefði ég líklega gert það með miklu trukki. Það er nokkuð sem mig langar ekki í,“ segir hún.

Leiðir Ingu og Páls Óskar lágu saman í gegnum Nasa.

„Við Páll Óskar urðum rosalega góðir vinir í gegnum Nasa. Þegar Nasa var lokað hringdi hann í mig og bauð mér starf sem ég hef verið í síðan og líkað mjög vel,“ segir Inga, en hún þvælist með Páli Óskari og fer með honum á öll gigg. Hún hjálpar honum í búninginn og er honum til halds og trausts þegar hann er að spila. Þegar ég spyr hana hvort hún stíliseri hann segir hún svo ekki vera.

„Auðvitað ræðum við föt en við erum líka upptekin af því hvernig maður eigi að halda sér unglegum,“ segir hún.

Ég veit ekki hvort Inga vill eitthvað ræða það en hún er fædd árið 1966 og verður 51 árs í september. Auðvitað er klisja að tala um aldur en við hinar viljum samt fá að vita hvernig hún fer að þessu. Þegar ég spyr hana hver sé galdurinn við að halda sér ungum segir hún þetta snúast mikið um góð gen.

„Ég hef líka æft stíft alla ævi. Ég keppti í sundi og maraþonhlaupi þegar ég var yngri og fór úr því að vera rosaleg íþróttastelpa í það að reka skemmtistað. Þótt ég væri að reka skemmtistað passaði ég alltaf upp á mig. Mataræðið skiptir náttúrlega mjög miklu máli,“ segir hún.

Hér er Inga í gallabuxum sem hún lét Selmu Ragnarsdóttur …
Hér er Inga í gallabuxum sem hún lét Selmu Ragnarsdóttur breyta. Við þær eru hún í kímanó úr Evu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Inga segir mér frá því að þegar hún var krakki hafi hún helst viljað hráan mat og eiginlega sé hún komin þangað aftur. Hún segir mér að hún borði mikið af hráum laxi og sambærilegri fæðu. Hún vilji einfaldan mat og sé eiginlega engin gourmet-kona.

„Ég er samt ekkert heilög. Ég á alveg eftir að borða borgara einhvern tímann í sumar. En ef ég fæ mér eitthvað óhollt borða ég það ekki út vikuna heldur læt einn dag duga.“

Hvað ertu að borða á venjulegum degi?

„Ég borða ávexti og annaðhvort fæ ég mér hráan lax og grænmeti eða hrærð egg. Svo drekk ég alltaf einhverja safa. Þetta borða ég ásamt miklu af hnetum. Þetta er frekar óspennandi fæði. En mér finnst þetta fínt. Ég hef aldrei verið matargúrú og verð ekkert leið á þessu. Nú, ef það gerist að mig langi í eitthvað óhollt þá fæ ég mér það.“

Inga æfir mjög mikið og hefur alltaf gert.

„Ég æfi í Sporthúsinu og er með sjúklega góðan einkaþjálfara sem heitir Garðar. Ég er hjá honum þrisvar í viku og svo geng ég mjög mikið. Ég get alveg gengið nokkur hundruð kílómetra á viku.“

Þótt Inga sé mikið fyrir falleg föt segist hún alltaf hafa verið nísk á íþróttaföt.

„Það er ótrúlegt hvað ég get verið nísk á að kaupa mér íþróttaföt. Ég æfði sund á hverjum degi í þrjá tíma á dag þegar ég var yngri og fyrstu þrjú árin átti ég aldrei sundbol. Ég fékk alltaf lánaðan sundbol. Svo var ég að æfa spretthlaup en átti aldrei gaddaskó heldur fékk þá lánaða,“ segir hún og hlær.

Kjóllinn er sérsaumaður af Selmu Ragnarsdóttur.
Kjóllinn er sérsaumaður af Selmu Ragnarsdóttur. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Talið berst að fataskápnum hennar Ingu, en í honum er að finna ýmislegt góss. Inga segist passa vel upp á dótið sitt.

„Ég er mjög öflug við að gefa hluti en það er alltaf einn og einn hlutur sem ég geymi. Ég á ennþá Tark-buxur sem ég keypti í 17 árið 1990 og passa ennþá í. Ég er reyndar búin að breyta þeim í hnébuxur. Það er alltaf einn og einn hlutur sem ég tek ástfóstri við og á í 100 ár,“ segir hún.

Á þessum árstíma er gaman að eignast eitthvað nýtt í fataskápinn sinn fyrir sumarið. Þegar ég spyr Ingu hvað henni finnist mest spennandi við vortískuna segist hún vera heilluð af gegnsæjum kjólum og strigaskóm.

„Ég er mjög hrifin af þessu Gucci-æði sem er í gangi núna. Ég myndi aldrei klæðast Gucci frá toppi til táar. Ég er núna að bíða eftir geðveikri Gucci-tösku sem ég pantaði mér á netinu, www.gucci.it. Það er gaman að sjá hvernig Gucci er að rísa upp á ný. Það fór úr því að vera ógeðslega heitt í það að verða hryllilega kerlingarlegt. Ég fíla Gucci í botn núna. Annars hef ég aldrei fílað að vera klædd í eitt merki frá toppi til táar. Ég er búin að gera þau mistök,“ segir hún og hlær og segir mér frá Karen Millen-tímabilinu sínu.

„Þegar Karen Millen opnaði á Íslandi var ég í öllu frá Karen Millen. Ég hefði fengið mér nærbuxur frá Karen Millen ef þær hefðu verið framleiddar. Þetta eru sorglegar minningar,“ segir hún og brosir.

Nú er kominn tími á óþægilegu spurningarnar í viðtalinu og Inga skorast ekkert undan þeim. Þegar ég spyr hana hvort hún kaupi sér föt í hverjum mánuði játar hún.

„Ég ætla ekkert að þræta fyrir það. En það er misjafnt hvað ég kaupi. Stundum kaupi ég mér buxur á 3.000 krónur í Zöru og inni á milli kaupi ég mér kannski rándýr sólgleraugu. Mér finnst flottast að blanda svona hlutum saman, dýrum og ódýrum.“

Inga segir mér að hún sé með æði fyrir samfestingum núna og svo væri hún alveg til í að eignast einhvern eitursvalan gegnsæjan kjól.

„Ég væri líka til í kúrekastígvél. Og svo finnst mér íþróttabuxur og gallabuxur alltaf flottar og líka bolir með flottu prenti.“

Þegar ég spyr Ingu út í merkjavöru segist hún vera hrifin af Gucci, Chloé, Fendi og Dolce & Gabbana.

„Svo held ég að Versace sé að detta í kommbakk,“ segir hún.

Hvað hefur þú í huga þegar þú klæðir þig?

„Ég hef engan einn stíl. Ég get dottið í það að vera rosa fín og vera töffaraleg. Það fer eftir því hvaða lag ég hef verið að hlusta á á Youtube eða eitthvað, hvernig var í ræktinni um morguninn. Ég fer aldrei inn í skáp og gríp bara eitthvað.“

Inga er einhleyp og barnlaus. Spurð hvers konar lífi hún lifi segir hún það kannski ekki alveg hefðbundið.

„Ætli ég lifi ekki frekar ólíku lífi en konur á mínum aldri. Ég vakna klukkan fimm og mæti fersk í ræktina klukkan sjö. Svo fer ég í að gera mig klára. Stundum fer ég að vinna í kringum Palla og stundum í búðinni. Líf mitt snýst mikið í kringum Pál Óskar. Þegar ég er ekki að vinna finnst mér voða notalegt að vera heima hjá mér,“ segir hún.

mbl.is/Hanna

Inga var gift en hefur verið einhleyp um nokkurt skeið.

„Ég er rosaóheppin í ástamálum. Þeir gæjar sem ég hef áhuga á hafa engan áhuga á mér,“ segir hún og hlær.

Ertu á Tinder?

„Nei, ég er ekki á Tinder. Ég vil ekki vera eins og allir hinir,“ segir hún og hlær og bætir við: „Erum við ekki öll að leita að ástinni?“

Ertu hamingjusöm?

„Já, ég er það og það eru litlir og furðulegir hlutir sem gera mig hamingjusama. Ég þarf ekki nema að heyra gott lag í útvarpinu, þá verð ég hamingjusöm, og það skiptir mig líka miklu máli að vera í góðu formi. Ég játa það samt alveg að ég á mín drama-móment, eins og aðrir. Ég er nefnilega dramadrottning. En ég hef aldrei upplifað það að vakna og vilja ekki fara fram úr. Ég vakna yfirleitt í mjög miklu stuði ein með sjálfri mér,“ segir Inga.

mbl.is/Hanna
Hér er Inga í gömlum Versace jakka við Adidas buxur.
Hér er Inga í gömlum Versace jakka við Adidas buxur. mbl.is/Hanna
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál