Valur vann stórsigur í Mosfellsbæ

Valskonur sækja hér að marki Aftureldingar.
Valskonur sækja hér að marki Aftureldingar. mbl.is/GRG

Fjölnir hafði betur gegn HK/Víkingi, 3:1, í viðureign neðstu liða Landsbankadeildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Keflavík og Stjarnan gerðu markalaust jafntefli en tvö efstu liðin unnu stóru sigra. KR lagði Fylki 5:0 og Valur vann Aftureldingu með átta mörkum gegn engu.

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði þrennu gegn Fylki og þær Þórunn Helga Jónsdóttir og Hrefna Huld Jóhannesdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Elísa Ósk Viðarsdóttir kom Fjölni yfir gegn HK/Víkingi á 18. mínútu í sannkölluðum botnbaráttuslag liðanna, en Karen Sturludóttir jafnaði eftir rúmlega klukkutíma leik. Rúna Sif Stefánsdóttir kom hins vegar Fjölni aftur yfir skömmu síðar og Íris Ósk Valmundsdóttir innsiglaði 3:1-sigur korteri fyrir leikslok. Fjölnisliðið er þar með komið upp fyrir HK/Víking og er einu stigi á eftir Keflavík.

Margrét Lára Viðarsdóttir og Dóra María Lárusdóttir skoruðu tvö mörk hvor og Sif Rykær eitt þegar Valur mætti Aftureldingu í Mosfellsbæ. Kristín Ýr Bjarnadóttir stal hins vegar senunni þegar hún kom inná á 70. mínútu og tókst að skora þrjú mörk á sex mínútna kafla. Valur heldur því efsta sætinu og er sex stigum á undan KR.

Nóg var um færi suður með sjó þar sem Keflavík og Stjarnan mættust en marksúlurnar og markverðir liðanna sáu til þess að engin mörk litu dagsins ljós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert