Eykur KR forskotið á ný?

Guðjón Baldvinsson úr KR og Hafsteinn Rúnar Helgason úr Stjörnunni …
Guðjón Baldvinsson úr KR og Hafsteinn Rúnar Helgason úr Stjörnunni mætast í kvöld. mbl.is/Eggert

KR-ingar geta náð fjögurra stiga forystu í Pepsi-deild karla í fótbolta á nýjan leik í kvöld en þá lýkur 16. umferðinni. KR fær Stjörnuna í heimsókn í Vesturbæinn klukkan 18.00.

KR er með 33 stig, ÍBV 32 og FH 31 í toppsætunum en KR á tvo leiki til góða á ÍBV og þrjá á FH. Á fimmtudagskvöldið tekur svo KR á móti ÍBV í toppslag deildarinnar og það ræðst því í kvöld hvort Vesturbæingar verði með eins, tveggja eða fjögurra stiga forskot á Eyjamenn þegar að þeim slag kemur. Stjarnan er í fimmta sætinu með 23 stig og eygir enn von um að blanda sér í baráttuna um Evrópusæti.

Fallbaráttan verður í algleymingi í Grindavík þegar heimamenn taka á móti Víkingi R. klukkan 18.00. Átta stig skilja liðin að þannig að Víkingar verða að innbyrða sigur í kvöld til að halda í raunhæfa von um að leika áfram í deildinni að ári.

Fram er í sömu stöðu og Víkingur, með 8 stig á botninum, og fær Val í heimsókn á Laugardalsvöllinn klukkan 19.15. Valsmenn eru í fjórða sætinu með 28 stig og geta náð FH að stigum á ný með sigri.

Loks eigast Fylkir og Breiðablik við í Árbænum klukkan 18.00 en þar mætast tvö lið sem hafa gefið talsvert eftir í undanförnum leikjum. Fylkir er í 6. sætinu með 19 stig en Blikar eru í 9. sæti með 16 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert