Kári: Við erum ekkert saddir

„Þetta er svolítið sjokk. Ég hefði nú helst viljað að það hefði líka verið jafntefli í Sviss svo þessi leikur hefði skipt máli,“ sagði Kári Árnason sem stóð vaktina vel í vörn Íslands gegn Noregi á Ullevaal í kvöld þegar liðið tryggði sér sæti í HM-umspili í fyrsta sinn.

Íslenska liðið fékk á sig mark á 30. mínútu en að öðru leyti skapaði Noregur sér ekki nein dauðafæri í leiknum.

„Ég held að við höfum svarað þessum gagnrýnisröddum í vörninni. Það lá svolítið á okkur allan leikinn en mér fannst við standa okkur frábærlega,“ sagði Kári. Íslandi dugði jafntefli þar sem Slóvenía vann ekki í Sviss heldur þvert á móti tapaði.

„Við heyrðum inn á völlinn að það væri 1:0 í Sviss og þá róuðust menn aðeins niður. Þetta var samt tæpt og þannig að ef mark hefði komið í báðum leikjum þá hefðum við dottið út,“ sagði Kári.

„Þetta er stærsta afrek sem landsliðið hefur nokkru sinni náð. Þetta er ákveðinn sigur fyrir okkur en við erum ekkert saddir og ætlum að fara alla leið. Þetta er frábær hópur af strákum, það er nánast sama hver kemur inná við höldum bara áfram,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert