Tólfan, stuðningsmannasveit knattspyrnulandsliða Íslands, hefur beðið lögregluna á höfuðborgarsvæðinu afsökunar á ásökunum um að Luka Modric, miðjumaður Króatíu, væri hættulegur maður sem bæri að stöðva á Keflavíkurflugvelli.
Tólfan hafði beðið um að Modric yrði stöðvaður við komu til landsins en eftir leikinn í gær þykir mönnum ljóst að Modric sé óttalegt grey. Skilaboð Tólfunnar til lögreglunnar má sjá hér að neðan:
„Kæru yfirvöld. Við viljum biðjast afsökunar á fyrri ásökunum okkar um um að Luca Modric væri stórhættulegur maður. Í ljós hefur komið að þvert á móti er hann óttalegt grey sem kom hingað eingöngu til að fylgja vini sínum Undiano sem var að dæma fótboltaleik á Íslandi. Þótt að sögusagnir séu í gangi um rómantískt samband þeirra á milli þá ætlum við ekki að staðhæfa neitt um það,“ skrifaði Tólfan, en myndband hefur gengið á Facebook þar sem Modric klappar spænskum dómara leiksins, Alberto Undiano, létt á bossann.