Stjörnustemning á Dómkirkjutorginu

„Hér hafa verið kyrjaðir söngvar Stjörnunnar og Silfurskeiðarinnar og menn að fara safnast saman á völlinn,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og dyggur stuðningsmaður Stjörnunnar, sem er staddur í Mílanó þar sem Stjarnan mun etja kappi við stórliðið Inter á San Síró í kvöld.

„Hér er mikil stemning í miðborginni. Nokkur hundruð Stjörnumenn hafa safnast saman á Dómkirkjutorginu og hafa látið vel í sér heyra. Margir heimamenn hafa safnast saman til að fylgjast með,“ segir Bjarni ennfremur og bætir við að búið sé að mála torgið í Stjörnulitunum. 

Aðspurður segir Bjarni, að heimamenn í Mílanó hafi tekið stuðningsmönnum Stjörnunnar mjög vel. „Þeir eru jákvæðir og kalla oft á eftir að þetta fari vel fyrir Stjörnuna.“

Upplifun að heimsækja San Síró

Bjarni segir að þetta sé fyrsta ferð hans á San Síró og kveðst hann hlakka mikið til að sjá hinn fornfræga völl. „Það verður upplifun.“

Stjarnan tók á móti Inter á Laugardalsvelli 20. ágúst sl. og enduðu leikar 3-0 fyrir gestina. Spurður út í möguleika Stjörnunnar í kvöld segir Bjarni: „Menn eru fyrst og fremst að hafa gaman að stað og stund. Ef að Stjörnunni tækist að skora í kvöld þá væri það auðvitað stórkostlegt, en það eru svosem ekki miklar væntingar um að við séu að fara í riðlakeppnina í Evrópukeppninni,“ segir Bjarni.

„En því hefur verið fleygt hérna að þetta gæti orðið svolítið þungur vetur að þurfa að fara á nokkurra vikna fresti að fylgjast með leikjum í riðlakeppninni,“ segir Bjarni í léttum dúr.

Bjarni vonast til þess að sem flestir verði á leiknum í kvöld og stemningin verði sem allra mest. „Hvað sem því líður þá getur aldrei orðið nema gaman hjá Stjörnumönnum,“ segir Bjarni.

Gaman að sjá Fabio Cannavaro

Líkt á sést á meðfylgjandi ljósmynd, hitti Bjarni og aðrir Stjörnumenn ítalska knattspyrnugoðið Fabio Cannavaro fyrir tvígang fyrir tilviljun í dag. Fyrst á hótelinu í Mílanó og svo á veitingastað skammt frá. „Hann var mjög vinalegur, heilsaði upp á okkur og leyfði okkur að taka mynd saman. Það höfðu allir svo gaman að því að sjá hann.“

Leikurinn hefst kl. 18:45 að íslenskum tíma (kl. 20:45 að ítölskum tíma).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert