Hjörtur náði úrvalsdeildarsæti í fimmta sinn

Hjörtur ætlar að setjast niður með Gunnlaugi Jónssyni þjálfara eftir …
Hjörtur ætlar að setjast niður með Gunnlaugi Jónssyni þjálfara eftir tímabilið og ræða hvort hann komi jafnvel inn í þjálfarateymið hjá ÍA. mbl.is/Eva Björk

„Mér líður óskaplega vel. Ég er óskaplega hamingjusamur fyrir hönd liðsins míns, strákanna, og bæjarfélagsins. Þetta skiptir Skagann miklu máli og er alveg frábært,“ sagði Hjörtur Hjartarson sem komst í kvöld upp í úrvalsdeildina í knattspyrnu í fimmta sinn á síðustu átta keppnistímabilum.

Aðspurður hvort Skagaliðið sé nú ekki komið á þann stað sem það á heima, og hvort ekki sé hreinlega undarlegt að vita af liðinu í 1. deild, sagði Hjörtur:

„Mér fannst það ofsalega skrýtið fyrst þegar Skaginn fór niður í 1. deild, árið 2008, en við lifum ekkert á fornri frægð. Þetta er frábært félag með merkilega sögu og allt það. Hún skilar einhverju en ekki sæti í Pepsi-deildinni ár eftir ár. Það er ekkert hægt að segja að ÍA eigi heima í efstu deild, en samt finnst manni að liðið eigi að vera þar.“

Fann fyrir karakternum í sigrinum á Víkingi Ó.

Hann segist seint á leiktíðinni hafa orðið fullviss um að ÍA væri á leiðinni aftur upp í deild þeirra bestu.

„Við erum búnir að vera á góðu skriði núna og náð að finna taktinn. Sigurinn í Ólafsvík var frábær, og þá fannst mér þetta vera algjörlega í okkar höndum. Þá fann ég hvað það er rosalega mikill karakter í þessu liði, og eftir það hefur karakter Skagaliðsins skinið í gegn,“ sagði Hjörtur.

Hef verið heppinn að fá að spila með góðum liðum

Hjörtur hefur nú fimm sinnum upplifað það að vinna sér sæti í úrvalsdeild frá því að hann fór fyrst upp með Þrótti R. árið 2007, og það er vísast met.

„Það hefur örugglega enginn nennt að spila í 1. deildinni eins lengi og ég þannig að þetta er ekki met sem maður hreykir sér mikið af,“ sagði markahrókurinn hlæjandi.

„Ég var orðinn 33 ára þegar ég fór fyrst upp, þannig að þetta hefur gerst á seinni árum. Ég er bara búinn að vera heppinn að fá að spila með góðum liðum. Ég var með frábæru liði Þróttar 2007, Selfoss-liðið var komið hálfa leið upp þegar ég fór þangað, og Skagaliðið 2011 og Víkingsliðið 2013 voru líka mjög góð lið. Það er ekki eins og að ég hefði getað komið fallliðunum í deildinni upp í sumar. En ég legg mitt af mörkum með reynslunni og skora eitthvað af mörkum, þó að ég hafi reyndar aldrei skorað eins fá og í sumar,“ sagði Hjörtur.

En hvað tekur nú við? Það er ekki á Hirti að heyra að hann reikni með að spila með Skagamönnum í efstu deild næsta sumar.

Í þjálfarateymið hjá Skagamönnum?

„Ef ég mætti ráða myndi ég spila öll sumur í gula búningnum, en staðreyndin er víst sú að ég verð fertugur eftir nokkrar vikur. Ég hef því kannski ekki alveg aldur og burði til að spila í úrvalsdeildinni en ég er samt ekkert að gefa út að ég sé hættur eða slíkt. Ég sest niður með Gulla eftir tímabilið og sé hvort ég get hjálpað eitthvað til, hvort sem það er í þjálfarateyminu eða á einhvern annan hátt,“ sagði Hjörtur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert