Bergsveinn: Meira undir hjá Frömurum

Bergsveinn Ólafsson og félagar eru í fallsæti.
Bergsveinn Ólafsson og félagar eru í fallsæti. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Fram og Fjölnir mætast á Laugardalsvelli í kvöld kl. 19.15 í leik sem ræður gríðarlega miklu í fallbaráttu Pepsi-deildarinnar. Tveimur stigum munar á liðunum fyrir leikinn en Fjölnismenn eru í fallsæti með 16 stig, nú þegar bæði lið eiga fjóra leiki eftir.

„Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur og hlýtur að teljast einn sá mikilvægasti á tímabilinu. Það er alltaf möguleiki til staðar, hvernig sem fer, en þessi leikur er úrslitaleikur. Við mætum samt í hann eins og hvern annan leik, og ef við gerum okkar besta þá fylgja úrslitin í kjölfarið,“ sagði Bergsveinn Ólafsson fyrirliði Fjölnis í samtali við mbl.is í dag.

Bergsveinn tók út leikbann í síðasta leik Fjölnis sem var gegn FH fyrir rúmum hálfum mánuði. Hann hefur því haft mikinn tíma til að hugsa um leikinn við Framara.

„Auðvitað er maður alltaf með hugann við þennan leik,“ sagði Bergsveinn sem segir meiri pressu á leikmönnum Fram. „Það er meira undir hjá Frömurunum. Þó að margir setji þetta upp sem sex stiga leik, úrslitaleik, þá er meira eftir. Ég vil meina að við höfum minna að tapa, það er meiri pressa á þeim að halda sér uppi. En að sjálfsögðu ætlum við okkur sigur,“ sagði Bergsveinn.

Fram fór með öruggan sigur af hólmi í Grafarvoginum fyrr í sumar, 4:1.

„Það var fyrsti slæmi leikurinn okkar á tímabilinu og þeir fóru bara illa með okkur. Þeir voru góðir og gengu yfir okkur, en við erum staðráðnir í að taka þrjú stig í kvöld,“ sagði Bergsveinn.

Ánægðir með það fólk sem mætir

Lítil stemning hefur virst vera í kringum Fjölnisliðið í sumar þrátt fyrir að það hafi byrjað vel í Pepsi-deildinni. Talsvert hefur verið gert úr litlum áhorfendafjölda á leikjum liðsins en Bergsveinn segir leikmenn ekki láta það á sig fá.

„Þetta er ekkert nýtt. Það eru bara ekki til neinir gamlir 40-50 ára harðir stuðningsmenn Fjölnis. Fjölnir er frekar nýtt félag og það hafa aldrei verið svakalegar áhorfendatölur. Þegar maður horfir á klúbba eins og Fram, Val og KR þá eiga þeir miklu stærri hópa enda mun eldri félög. Við erum bara ánægðir með það fólk sem mætir og styður okkur, og erum ekkert að kippa okkur upp við þetta,“ sagði Bergsveinn.

Fyrir leikinn í kvöld er Fjölnir með 16 stig, Fram 18 og Keflavík 19. Fjölnir og Fram eiga leikinn í kvöld til góða en svo eru þrjár umferðir eftir. ÍBV og Breiðablik eru svo með 21 stig hvort. Þór er fallinn en spurningin er hvaða lið fylgir Þórsurum niður.

Leikirnir sem liðin eiga eftir:

Keflavík:
Fylkir (h)
ÍBV (ú)
Víkingur R. (h)

Fram:
Fjölnir (h)
FH (ú)
Stjarnan (ú)
Fylkir (h)

Fjölnir:
Fram (ú)
Stjarnan (h)
Fylkir (ú)
ÍBV (h)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert