Þóra kveður: Erfitt að skilja við þetta gengi

„Í heildina er ég mjög ánægð með ákvörðunina en núna þegar ég er að taka síðustu æfingarnar og síðasta leikinn þá er þetta mjög erfitt,“ sagði Þóra Björg Helgadóttir markvörður sem kveður íslenska landsliðið á Laugardalsvelli í dag, þegar liðið mætir Serbíu kl. 17 í lokaleik undankeppni HM.

Þóra lék um liðna helgi sinn 107. landsleik en þann fyrsta lék hún í maí 1998. Hún segist skilja við landsliðið í góðum málum.

„Mér finnst framtíðin gríðarlega björt. Við erum orðnar betur spilandi og Freysi [Freyr Alexandersson, þjálfari] hefur komið inn með stífa taktík, við sitjum eiginlega á skólabekk í landsliðsferðum. Það hentar okkur vel. Við erum með mjög skýr hlutverk, svipað og hjá karlalandsliðinu, og ég held að það henti þessum íslenska stíl. Þetta er ungt lið, sérstaklega þegar ég verð farin, og þær verða óstöðvandi,“ sagði Þóra, sem tekur undir að mikið hafi breyst frá fyrstu landsleikjunum hennar.

„Það hefur eiginlega allt breyst; umgjörðin, við fáum dagpeninga, ferðalögin, þjálfun, áhorfendafjöldinn, þetta hefur eiginlega allt breyst og mun halda áfram að breytast,“ sagði Þóra fyrir síðustu landsliðsæfingu sína í gær.

„Ég skil við landsliðið á mínum forsendum og það eru fáir sem fá að gera það. Það verður erfitt að skilja við þetta gengi en ég er mjög ánægð,“ sagði Þóra sem um árabil hefur verið einn af betri markvörðum heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert