Rosický: Alltaf verið hrifinn af Gylfa

Tomás Rosický er fyrirliði Tékka.
Tomás Rosický er fyrirliði Tékka. AFP

„Ég held að það sé engin tilviljun að Ísland skuli hafa náð svona langt,“ sagði Tomás Rosický, fyrirliði tékkneska landsliðsins í knattspyrnu, á fréttamannafundi í Plzen í kvöld fyrir stórleikinn við Ísland í undankeppni EM annað kvöld.

„Árangurinn talar sínu máli. Þetta er lið sem sækir hratt fram og er mjög samheldið. Það hefur sýnt gegn Tyrklandi og Hollandi að þetta verður erfiður leikur. Ég vil ekki segja að liðin geri mikið úr litlu, en þau ná að nýta sitt vel,“ sagði Rosický. Aðspurður hvort íslenska liðið í dag væri mjög ólíkt því sem hann mætti fyrir 13 árum, sem Tékkar töpuðu fyrir 3:1, sagði Rosický svo vera.

„Ég man vel eftir leiknum og það eru ekki góðar minningar. Þeir hafa tekið stór skref fram á við frá árinu 2001. Þá léku þeir mikið einfaldari fótbolta en núna er stíllinn allt öðruvísi. Þeir halda boltanum mjög vel og eiga gott með að aðlagast stöðunni í leiknum hverju sinni.“

Aðspurður hverjir væru bestu leikmenn íslenska liðsins sagði Rosický, eftir örlítil vandræði með framburðinn, að líklega væru það Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson. Hann kvaðst einnig þekkja vel til andstæðinga sinna á miðjunni, Gylfa og Arons Einars Gunnarssonar.

„Þeir hafa báðir spilað í ensku úrvalsdeildinni og eru mjög reyndir. Ég held að það verði gaman að mæta þeim annað kvöld. Gylfi er aðalmaður liðsins, ef svo má segja, og ég skil ekki af hverju hann fór frá Tottenham. Hann spilaði alltaf vel og var alltaf hættulegur. Ég veit ekki hvort hann vildi fara eða Tottenham láta hann fara. Ég hef alltaf verið hrifinn af honum og hann hefur sýnt í haust hvað hann er góður leikmaður,“ sagði Rosický.

Geta tekið stórt skref í átt til Frakklands

Tékkar spila vanalega á þjóðarleikvangi sínum í Prag en leikurinn annað kvöld fer fram hér í Plzen á Doosan Arena, sem tekur tæplega 12.000 manns í sæti.

„Ég hef aldrei spilað hér og ég held að það sé betra í þessum leik að spila á minni velli og hafa hann fullan. Ég hlakka til að þreyta frumraun mína hérna,“ sagði Rosický. Ísland er efst í riðlinum sem stendur á markatölu, en bæði lið hafa níu stig eftir þrjá fyrstu leikina.

„Bæði lið gera sér grein fyrir því að liðið sem vinnur á morgun tekur stórt skref í átt að markmiði sínu [að komast í lokakeppni EM í Frakklandi]. Þetta verður afar spennandi leikur,“ sagði Rosický.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert