Jafntefli í stórleiknum

Ólafur Karl Finsen og Böðvar Böðvarsson eigast við í leiknum …
Ólafur Karl Finsen og Böðvar Böðvarsson eigast við í leiknum í kvöld. Kristinn Ingvarsson

Stjarnan og FH skildu jöfn, 1:1, í stórleik liðanna sem börðust um Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu á síðustu leiktíð, í lokaleik 5. umferðar. Ólafur Karl Finsen og Kassim Doumbia skoruðu mörkin.

Leikurinn byrjaði afskaplega fjörlega og Sam Hewson var nærri því að koma FH yfir með skalla en Gunnar Nielsen varði. Garðar Jóhannsson átti svo hælspyrnu sem Davíð Þór Viðarsson bjargaði á marklínu, áður en Ólafur Karl skoraði á 6. mínútu. Þorri Geir átti þá góða sendingu út á hægri kant þar sem Heiðar Ægisson gaf strax fyrir markið og Ólafur Karl skoraði með viðstöðulausu skoti.

Eftir markið dró Stjörnuliðið sig nokkuð aftarlega á völlinn og FH hafði stjórn á leiknum. Jérémy Sewry komst í dauðafæri á 16. mínútu þegar boltinn hrökk óvænt yfir Stjörnuvörnina en Gunnar kom til bjargar með góðu úthlaupi. Hann var að öðrum ólöstuður besti maður leiksins.

Staðan var 1:0 í hálfleik en FH var nálægt því að jafna metin úr fyrsta færi seinni hálfleiks þegar Bjarni Þór Viðarsson skaut yfir úr góðu skotfæri í teignum. Á 60. mínútu kom hins vegar jöfnunarmarkið þegar Kassim Doumbia, í sínum fyrsta leik á mótinu eftir að hafa byrjað í fjögurra leikja banni, skallaði knöttinn í stöng og inn eftir hornspyrnu Serwy.

Stjarnan gerði tvöfalda skiptingu í kjölfarið og komu þeir Jeppe Hansen og Pablo Punyed inná fyrir Garðar Jóhannsson og Veigar Pál Gunnarsson, sem byrjuðu leikinn. Michael Præst byrjaði einnig sinn fyrsta leik síðan hann sleit krossband í hné í ágúst í fyrra, og komst vel frá sínu á miðjunni.

FH var nær því að tryggja sér sigur í lokin. Sam Hewson átti skot úr dauðafæri í teignum sem Gunnar varði frábærlega, og í blálokin átti Doumbia skalla eftir hornspyrnu sem Hörður Árnason varði á marklínu.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Fjallað verður ítarlega um leiki kvöldsins í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Stjarnan 1:1 FH opna loka
90. mín. Þórarinn Ingi Valdimarsson (FH) fær gult spjald Fyrir brot á Þorra Geir úti á kanti. Þórarinn hefur alveg séð þetta gula spjald áður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert