Blikar fóru illa með Íslandsmeistarana

Blikinn Andri Rafn Yeoman með boltann í leiknum í kvöld.
Blikinn Andri Rafn Yeoman með boltann í leiknum í kvöld. Styrmir Kári

Breiðablik batt enda á taplausa hrinu Íslandsmeistara Stjörnunnar í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust á Kópavogsvelli. Stjarnan hafði ekki tapaði í 27 leikjum í röð en þurfti að sætta sig við 3:0-tap í kvöld.

Blikar mættu mun ákveðnari til leiks og strax á 11. mínútu kom fyrsta markið. Kristinn Jónsson var felldur innan teigs og vítaspyrna dæmd. Á punktinn steig Guðjón Pétur Lýðsson og skoraði í stöng og inn, hans fjórða á tímabilinu.

Einungis fjórum mínútum síðar kom annað markið og aftur var Kristinn arkitektinn. Hann átti þá langa sendingu inn á teiginn, Arnór Ari Atlason tók boltann á kassann og lagði svo í netið. Kristinn undirbjó einnig þriðja markið sem Elfar Freyr Helgason skoraði á 37. mínútu, en skot Kristins var þá varið fyrir fætur Elfars sem skoraði. 3:0 í hálfleik og það fyllilega verðskuldað.

Stjarnan gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik og þá þriðju eftir rúmlega 50 mínútna leik, þar sem taka átti til í sóknarleik liðsins. Þrátt fyrir það varð þeim lítið ágengt fram á við og Blikar fengu hættulegri færi, en virtust þó ekki þurfa að hafa mikið fyrir hlutunum þar sem allt bit vantaði í leik meistaranna.

Stjarnan reyndi að pressa undir lokin en heimamenn áttu ekki í vandræðum með að brjóta sóknir þeirra á bak aftur. Leikurinn fjaraði að lokum út, lokatölur 3:0 fyrir Breiðablik og var þetta fyrsta tap Stjörnunnar síðan 28. september 2013 í lokaumferð deildarinnar það ár.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Fylgst var með gangi mála í öllum leikjum kvöldsins í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI hér á mbl.is.

Breiðablik 3:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Stjarnan reynir að pressa en þetta mun að öllum líkindum fjara bara út. Uppbótartími er 3 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert