Þurfum að vinna baráttuna

Finnur Ólafsson í leik með Víkingi í sumar.
Finnur Ólafsson í leik með Víkingi í sumar. mbl.is / Eva Björk Ægisdóttir

Finnur Ólafsson, leikmaður Víkings, er spenntur fyrir leiknum gegn Fylki í tíundu umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu á Fylkisvellinum í kvöld. Liðunum hefur báðum gengið verr en væntingar stóðu til í stigasöfnun sinni, en sigur í kvöld lyftir því liði upp í efri helming deildarinnar.

„Liðið sem vinnur leikinn í kvöld getur farið að horfa ofar upp töfluna, þannig að leikurinn í kvöld er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið. Við setjum þennan leik í kvöld samt ekki upp sem úrslitaleik um framhaldið, en vitum vel að sigur í kvöld þýðir að við getum farið að gera okkur gildandi í efri helmingi deildarinnar og þar viljum við klárlega vera.“

„Við þurfum að fara aftur í grunninn í leiknum í kvöld ef vel á að fara. Vera duglegir, færa liðið hratt og vel og tala saman. Við þurfum að elta uppi hvern einasta bolta og vinna saman. Ef að þessir þættir eru til staðar þá getum við náð upp góðu spili og spilað fótbolta eins og við viljum gera það.“ 

„Við spiluðum vel á móti Fjölni og það hefur verið stígandi í okkar leik undanfarið. Fjölnisleikurinn gefur okkur samt ekkert í kvöld, þetta snýst bara um hvernig við komum til leik. Við þurfum fyrst að vinna baráttuna og reyna svo að byggja upp okkar spil og hvernig við viljum spila boltanum.“

Finnur átti góðan leik í sigrinum á móti Fjölni í síðustu umferð og honum finnst hann og liðið allt hafa sýnt stíganda í undanförnum leikjum. 

„Mér hefur fundið ástandið á mér og liðinu öllu hafa verið að batna með hverjum leiknum. Ég lenti reyndar í því að það kom sprunga í nefið á móti ÍBV og þurfti að hvíla í kjölfar þess. Svo erum við slípa okkur saman, það urðu miklar breytingar á liðinu eftir síðasta tímabil og þó svo að Óli (Ólafur Þórðarson) og Milos (Milos Milojevic) hafa gert mjög vel að stimpla það inni menn hvernig þeir vilja spila, þá þurfa leikmenn tíma til þess að læra inn á hvern annan. Þannig að ég býst við okkur sterkari og sterkari með hverjum leik.“

Knattspyrnuáhugamenn hafa kallað eftir því að leikjunum í Pepsi deildinni sé dreift á fleiri leikdaga og auk þess hafa margir rennt hýru auga til þess að spila leiki á föstudagskvöldum. Finnur er ánægður með að spila á föstudagskvöldi í kvöld og væri til í að gera meira af því.

„Það er skemmtileg tilbreyting að spila á föstudagskvöldi og þetta ætti eðlilega að vera oftar svona. Það að dreifa leikjunum yfir helgina væri skemmtilegra fyrir alla sem koma að fótboltanum. En þessar raddir hafa verið háværar í þó nokkurn tíma og maður sér KSÍ ekkert vera að fara breyta þessu. Þannig það er kannski ennþá skemmtilegra fyrir vikið þegar það hittist svona á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert