„Auðvitað leitaði ég ráða hjá afa“

Hólmbert Aron Friðjónsson.
Hólmbert Aron Friðjónsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það voru nokkur félög sem vildu fá mig, bæði hér heima og erlendis og ég þurfti að taka erfiða ákvörðun. Eftir góða umhugsun varð KR fyrir valinu,“ sagði Hólmbert Aron Friðjónsson, sem í gær skrifaði undir tveggja og hálf árs samning við bikarmeistara KR.

Hólmbert lék sem lánsmaður með danska úrvalsdeildarliðinu Bröndby á síðustu leiktíð en hann á mála hjá skoska meistaraliðinu Celtic.

„Ég tel mig hafa valið besta kostinn að ganga til liðs við KR. KR er flottur klúbbur sem ávallt er í titilbaráttu en ég geri mér fulla grein fyrir því að þar bíður mín hörkusamkeppni um að komast í liðið. Ég er ekkert hræddur við samkeppnina. Hún eflir mann bara. Nú þarf ég bara að koma mér í mitt besta stand og komast í leikform. Ég get ekki beðið eftir því að byrja að æfa með KR og kynnast strákunum,“ sagði Hólmbert Aron en Valur, Stjarnan og Breiðablik reyndu öll að fá Hólmbert til liðs við sig.

Afi Hólmberts og nafni þjálfaði KR-liðið á árum áður og Hólmbert segist hafa ráðfært sig við afa sinn áður en hann tók þá ákvörðun að fara til KR.

„Auðvitað leitaði ég ráða hjá afa. Afi er gamall KR-ingur og þjálfaði liðið. Hann er hrikalega ánægður fyrir mína hönd. Hann horfði á hverja einustu æfingu hjá mér áður en ég fór út og ég veit að hann er mjög ánægður að geta fylgst vel með barnabarninu aftur. Ég get alveg lofað því að afi verður fastagestur í Frostaskjólinu.

Hólmbert, sem var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar árið 2013 þegar hann skoraði 10 mörk í 21 leik með Fram, verður löglegur með KR-liðinu þann 15. þessa mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert