Hermann tekinn við Fylki

Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson. Ómar Óskarsson

Hermann Hreiðarsson er tekinn við Fylki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, en þetta staðfesti Ásgeir Ásgeirsson, formaður knattspyrnudeildar Fylkis, við mbl.is nú rétt í þessu.

Eins og mbl.is greindi frá í dag hefur Ásmundur Arnarsson verið látinn fara sem þjálfari liðsins, en Ásgeir segir að 4:0-tap liðsins gegn ÍBV í átta liða úrslitum bikarsins á laugardag hafi verið kornið sem fyllti mælinn.

„Það má segja það. Okkur fannst vera komið að endastöð og stjórnin taldi vera þörf á breytingum. Auðvitað er sárt að grípa til svona ráðstafana en svona er fótboltinn og því miður er það hlutur Ása að víkja,“ sagði Ásgeir við mbl.is.

Ásgeir staðfesti jafnframt að Reynir Leósson og Kjartan Sturluson verða áfram í hlutverki aðstoðarþjálfara liðsins, en þeir voru Ásmundi einnig til halds og trausts.

Árið 2013 var Hermann þjálfari ÍBV og skilaði liðinu sjötta sæti Pepsi-deildarinnar, en hætti sem þjálfari liðsins eftir tímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert