„Þetta verður stál í stál“

Keflvíkingar mæta Víkingi í fallbaráttuslag í Víkinni í kvöld.
Keflvíkingar mæta Víkingi í fallbaráttuslag í Víkinni í kvöld. mbl.is / Styrmir Kári

Jóhann Birnir Guðmundsson, annar þjálfari Keflavíkur, er spenntur fyrir leik Keflavíkur og Víkings í 12. umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu sem fram fer á Víkingsvellinum í kvöld. Leikurinn er afar mikilvægur í botnbaráttu deildarinnar og ljóst að Keflavík verður að fara að hala inn stigum ef liðið ætlar sér að forðast fall úr deild þeirra bestu.

„Ég er bara mjög spenntur fyrir leiknum í kvöld. Það er góð stemming í Keflavík þrátt fyrir slæmt gengi og spilamennskan í undanförnum leikjum hefur verið góð. Við þurfum hins vegar að fara að færa okkur góða spilamennsku í nyt og tryggja okkur þrjá punkta.“

„Þetta hefur verið svolítið stöngin út í sumar og við höfum verið að tapa leikjum með einu marki. Það hafa ekki verið neinir leikir undanfarið þar sem við höfum verið yfirspilaðir og það hefur verið stígandi í okkar leik. Við vorum þéttir til baka í síðasta leik á móti Leikni og vorum ekki að gefa jafn mörg færi á okkur í þeim leik eins og við höfum verið að gera fyrr í sumar sem er mjög jákvætt.“

„Bæði Chuck (

<span>Chukwudi Chijindu) og Farid (Abdel Farid Zato Arouna) hafa komið vel inn í hópinn og litið vel út á æfingum og þeir verða báðir í leikmannahópnum í kvöld. Chuck gefur okkur aðra vídd í sóknarleikinn og mikilvægt að fá hann þar sem Hörður Sveinsson hefur verið meiddur. Sigurbergur Elísson hefur verið að spila frammi og staðið sig vel þar, en hans hæfileikar nýtast hins vegar betur annars staðar á vellinum.“</span><br/><br/>

„Liðin eru í svolítið svipaðri stöðu fyrir leikinn í kvöld. Báðum liðum finnst sumarið hafa verið vonbrigði og að hlutirnir hafi ekki hafa verið að detta með þeim. Bæði lið myndi glöð þiggja stigin þrjú sem í boði eru og þetta verður alveg klárlega stál í stál í kvöld.“ sagði Jóhann Birnir Guðmundsson í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert