Fumlaust fyrsta skref til Hollands

Ísland átti ekki í neinum vandræðum með að leggja Hvíta-Rússland að velli í fyrsta leik sínum í undankeppni EM kvenna í knattspyrnu, á Laugardalsvelli í kvöld.

Ísland hafði algjöra yfirburði í leiknum frá A til Ö, og til marks um það átti liðið 27 marktilraunir gegn nákvæmlega engri af hendi gestanna. Aðeins var tímaspursmál hvenær Ísland næði að brjóta ísinn og það tókst á 30. mínútu þegar Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði af stuttu færi eftir langan sprett inn í teiginn, þar sem hún fékk boltann eftir frábæran undirbúning Hörpu Þorsteinsdóttur. Harpa virtist svo sannarlega eiga að fá vítaspyrnu skömmu síðar en ekkert var dæmt, og þá fór boltinn í hönd varnarmanns Hvíta-Rússlands innan teigs en sömuleiðis var þá ekkert dæmt. Staðan 1:0 í hálfleik.

Ísland sótti áfram stíft í seinni hálfleiknum og á 73. mínútu kom seinna markið, þegar Dagný Brynjarsdóttir skallaði í netið eftir fyrirgjöf Hallberu Guðnýjar Gísladóttur, sem átti frábæran leik. Hallbera krækti svo í vítaspyrnu skömmu síðar þegar skot hennar fór í hönd varnarmanns Hvíta-Rússlands. Margrét Lára Viðarsdóttir fór á punktinn, í sínum 100. A-landsleik, en þrumaði boltanum því miður yfir markið.

Margréti var klappað lof í lófa þegar henni var skipt af velli örfáum mínútum fyrir leikslok, og komst vel frá sínu í þessum tímamótaleik en hún átti sinn þátt í fyrra markinu með sendingu á Hörpu. Hún var svo heiðruð að leik loknum.

Næstu leikir Íslands eru á útivelli gegn Makedóníu og Slóveníu undir lok október, en keppt er um að komast í lokakeppnina sem fram fer í Hollandi 2017.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í kvöld og fjallað verður ítarlega um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Ísland 2:0 Hvíta-Rússland opna loka
90. mín. Hlé á leiknum eftir að Hallbera dúndraði boltanum í andlit Lutskevich. Hún þarf einhvern tíma til að jafna sig á þessu. Þetta var af mjög stuttu færi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert