Guðjón með þrennu og Keflavík með met

Þorri Geir Rúnarsson úr Stjörnunni og Hólmar Örn Rúnarsson úr …
Þorri Geir Rúnarsson úr Stjörnunni og Hólmar Örn Rúnarsson úr Keflavík eigast við. Ljósmynd/Víkurfréttir

Stjarnan vann stórsigur á föllnum Keflvíkingum í næstsíðustu umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu í dag, 7:0.

Stjörnumenn höfðu ótrúlega yfirburði í leiknum gegn arfaslöku liði Keflavíkur sem var án Einars Orra Einarssonar og Frans Elvarssonar vegna leikbanns. Guðjón Baldvinsson skoraði tvö mörk á fyrsta korterinu og Halldór Orri Björnsson bætti við þriðja markinu með laglegu skoti, en það var áttunda deildarmark hans í leikjum gegn Keflavík. Staðan var 3:0 í hálfleik.

Guðjón fullkomnaði þrennuna sína snemma í seinni hálfleik með góðu skoti af vítateigslínunni, og Þórhallur Kári Knútsson skoraði fimmta markið tveimur mínútum síðar eftir misheppnað úthlaup Sigmars Inga Sigurðarsonar, sem stóð í marki Keflavíkur í fyrsta sinn í sumar.

Stjarnan fékk fjölda færa í viðbót til að skora, á meðan að Keflavík skapaði sér ekki alvöru færi, en sjötta markið skoraði varamaðurinn Jeppe Hansen eftir að hafa sloppið einn í gegnum vörn gestanna. Hann átti svo sendinguna á Heiðar Ægisson sem skoraði sjöunda markið í lokin.

Stjarnan er nú örugg um að ná að minnsta kosti 6. sæti og liðið er þremur stigum á eftir Fjölni sem er í 5. sæti.

Keflavík er löngu fallin og setur met með frammistöðu sinni í sumar en liðið getur í mesta lagi náð 10 stigum, með sigri í lokaumferðinni. ÍA átti metið yfir fæst stig í 12 liða deild en Skagamenn fengu 11 stig árið 2013. Aldrei hefur lið fengið á sig fleiri mörk í 12 liða deild, eða 59 talsins, en Víkingur R. fékk á sig 59 mörk í 10 liða deild árið 1993.

Stjarnan 7:0 Keflavík opna loka
90. mín. Heiðar Ægisson (Stjarnan) skorar 7:0 - Jeppe laumaði boltanum inn á Heiðar sem átti gott hlaup inn í teiginn og skoraði undir Sigmar. Sjö mörk!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert