Brynjar Ásgeir samdi við FH-inga

Brynjar Ásgeir Guðmundsson í baráttu við Igor Taskovic
Brynjar Ásgeir Guðmundsson í baráttu við Igor Taskovic mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Ásgeir Guðmundsson skrifaði nú í hádeginu undir nýjan þriggja ára samning við Íslandsmeistara FH en samningur hans við félagið átti að renna út um næstu mánaðarmót.

Brynjar, sem er 23 ára gamall og er afar fjölhæfur leikmaður, er uppalinn í FH og hefur leikið með liðinu allan sinn feril. Hann hefur spilað með öllum yngri landsliðunum, þar af tvo leiki með U21 árs landsliðinu.

Hann kom við sögu í 12 leikjum FH-liðsins á nýliðnu tímabili og skoraði í þeim 2 mörk en Brynjar Ásgeir hefur spilað samtals 43 leiki með FH-ingum í deild, bikar og í meistarakeppni og hefur í þeim skorað 6 mörk.

Samkvæmt heimildum mbl.is settu nokkur félög sig í samband við Brynjar Ásgeir og vildu fá hann til liðs við sig en hann ákvað að halda tryggð við sitt uppeldisfélag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert