„Smáþynnka eftir EM-farseðilinn“

Alfreð Finnbogason lætur skotið ríða af í leiknum við Letta.
Alfreð Finnbogason lætur skotið ríða af í leiknum við Letta. mbl.is/Golli

Logi Ólafsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, var að sjálfsögðu meðal tæplega tíu þúsund áhorfenda á Laugardalsvellinum þegar íslenska landsliðið lék síðasta heimaleikinn í undankeppni Evrópumótsins á laugardaginn.

Morgunblaðið leitaði álits hjá Loga á frammistöðu íslenska liðsins. „Mín tilfinning varðandi íslenska liðið er sú að merkum áfanga hefur verið náð með EM-sætinu. Menn hafa verið njörvaðir niður í ákveðið leikkerfi og náð góðum árangri með því. En einhvers staðar í undirmeðvitundinni held ég að menn hafi sleppt örlítið fram af sér beislinu og gert eitthvað annað. Þetta ristir ekki dýpra en það að þetta sé smáþynnka eftir að farseðillinn til Frakklands var í höfn,“ sagði Logi Ólafsson.

„Liðið spilaði vel í fyrri hálfleik en ég held að leikmenn hafi metið hlutina í hálfleiknum svo að þetta væri auðvelt og sigurinn í höfn. Maður sá að menn leyfðu sér að gera hluti sem þeir hafa ekki leyft sér áður og ég held að þessi leikur sé gríðarlega góð áminning til þeirra um að ef menn ætla að gera góða hluti í framhaldinu þýðir ekkert að gera annað en það sem þeir hafa verið að gera í keppninni til þessa. Það er ekkert óeðlilegt við að það komi smáhiksti einhvern tímann en nú er bara spurning hvernig menn vinna sig út úr því og hvað þeir læra af þessu. Þessi viðvörun er ódýru verði keypt þar sem Ísland er enn í toppsæti riðilsins en menn verða að draga sinn lærdóm af svona leikjum,“ sagði Logi.

Síðasti leikur Íslendinga í undankeppninni er gegn Tyrkjum á útivelli annað kvöld og reiknar Logi með erfiðum leik fyrir okkar menn.

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að leikurinn úti í Tyrklandi verður gríðarlega erfiður og menn þurfa að grafa svolítið djúpt inn í sálina til þess að ná í réttu stemninguna,“ sagði Logi Ólafsson, sem stýrði íslenska landsliðinu frá 1996-97 og aftur ásamt Ásgeiri Sigurvinssyni frá 2003-05.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert