„Pressan er miklu meiri í Malmö“

Viðar Örn Kjartansson t.h.
Viðar Örn Kjartansson t.h. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðherjinn marksækni Viðar Örn Kjartansson stimplaði sig heldur betur inn í stórlið Malmö í gær þegar hann skoraði öll þrjú mörk liðsins í 3:0 sigri á Häcken í efstu deildinni í Svíþjóð, Allsvenskan. Viðar var skiljanlega ánægður með dagsverkið þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans en benti hreinskilnislega á að hann hefði verið farinn að bíða eftir marki.

„Við spiluðum miklu betur en við höfum gert í síðustu leikjum og á það bæði við um mig og liðið í heild sinni. Við spiluðum á móti fínu liði en spiluðum rétt á móti því og nýttum marktækifærin. Mér finnst ég hafa spilað mjög vel undanfarið en mörkin hefur vantað. Ég gagnrýni sjálfan mig slatta ef við á. Þegar þú ert framherji og mörkin vantar ertu bara lélegur í allra augum og eiginlega í þínum eigin líka,“ sagði Viðar, sem gekk til liðs við Malmö fyrir þetta tímabil eftir dvöl í Kína.

Viðar raðaði inn mörkunum fyrir Vålerenga í Noregi árið 2014 og voru miklar vonir bundnar við markheppni hans í Malmö. „Pressan er miklu meiri hérna. Ég kom hingað fyrir ágætis fjárhæð og hérna hefur mikið verið talað um það. Fyrir vikið er ætlast til þess að ég skori nánast tvö mörk í leik en ég skoraði ekki í fjórum eða fimm leikjum. Ég hef nánast aldrei lent í því fyrr á ferlinum og því fylgir smá örvænting með minnkandi sjálfstrausti í vítateignum. Rosalega miklu máli skiptir að sjálfstraustið sé í lagi og hjá sóknarmönnum gerist það bara þegar þeir skora. Í síðasta leik var mark ranglega dæmt af mér, sem var hrikalega svekkjandi. Ég vissi samt að stíflan myndi bresta og ef mér tækist að skora eitt myndu fleiri mörk fylgja í kjölfarið."

Nánar er rætt við Viðar Örn í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert