Vanur að spila í gegnum sársauka

Aron Einar Gunnarsson fyrirliði í viðtali.
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði í viðtali. mbl.is/Styrmir Kári

„Ástandið á líkamanum er bara allt í lagi, ég hef alveg verið betri. Það er beinflís sem er á slæmum stað og ég finn fyrir því. Ég hef hins vegar spilað í gegnum meiri sársauka áður og hef engar áhyggjur af þessu,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is fyrir æfingu liðsins í dag. 

„Ég mun nota þessa viku til þess að koma mér í gírinn aftur og svo er planið að æfa af fullum krafti í lok þessarar viku. Ég reikna með að það gangi eftir. Ég mun pottþétt spila í gegnum smá sársauka í sumar. Það hefur ekki stoppað mig hingað til að spila þrátt fyrir að finna til og þetta eru ekki leikirnir til þess að byrja á því að láta smávægileg meiðsli aftra því að ég spili,“ sagði Aron Einar enn fremur um stöðuna á meiðslum sínum. 

„Ég reikna með að spila í komandi verkefnum. Ég veit ekki alveg hversu mikið er skynsamlegt að ég spili þar sem það er langt síðan ég æfði af fullum krafti og spilaði. Ég hef aðallega verið að synda og hjóla undanfarið og halda mér við. Ég er ekki í leikformi til þess að spila heilan leik, en þessir leikir munu hjálpa mér að komast í mitt besta form,“ sagði Aron Einar um leikformið hjá sér.

„Við erum allir gríðarlega spenntir og maður finnur fyrir mikilli spennu í samfélaginu. Fólkið sem ég hitti á förnum vegi hvetur okkur til dáða. Ég hitti mætan mann í líkamsræktinni um daginn sem sagði að við ættum ekki að hafa neinar áhyggjur af því að komast ekki áfram, við værum samt flottir,“ sagði Aron Einar um stemmninguna í leikmannahópnum. 

„Markmið okkar eru hins vegar skýr, við ætlum okkur upp úr riðlinum og taka svo stöðuna eftir það. Við höfum aldrei farið í nein verkefni til þess að vera með og hafa bara gaman af hlutunum. Nú þegar við erum komnir á þennan stað setjum við okkur ný markmið og við förum í alla leiki til þessa að vinna þá,“ sagði Aron Einar um lokakeppnina sem fram undan er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka