Höldum að við séum betri

Bjarni Guðjónsson.
Bjarni Guðjónsson. mbl.is/Eggert

„Þetta var hroðalegur klaufagangur í mörkunum tveimur sem þeir skoruðu,“ sagði Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, eftir 2:1-tapið gegn ÍA í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

KR var yfir í leiknum fram á 83. mínútu þegar Garðar Gunnlaugsson jafnaði metin úr vítaspyrnu, og Garðar skoraði svo ótrúlegt sigurmark í blálok leiksins.

„Við erum ekki með fullan fókus í varnarvinnunni hjá okkur og eigum ekkert skilið. Við gefum þeim tvö mörk, eigum fínar fyrirgjafir, fáum tækifæri og eigum að skora fleiri mörk, nýtum þau ekki, hlaupum ekki hlaupin okkar, og þá eigum við ekkert skilið út úr leikjunum,“ sagði Bjarni. Aðspurður hvort svona hefði þetta verið í síðustu leikjum svaraði hann:

„Þetta hefur ekki verið alveg svona slæmt. Við erum að reyna að sleppa þægilega – sleppa því að vinna stöðuna úti á kantinum sem endar svo með því að þeir fá víti. Svo veit ég ekki hvað við vorum að hugsa í seinna markinu þeirra heldur. Við tökum rangar ákvarðanir, höldum að við komumst upp með þetta og erum ekki að vinna vinnuna eins og við eigum að gera.“ Bjarni vildi ekki kenna Stefáni Loga Magnússyni markverði um sigurmark ÍA en það kom eftir að Stefán Logi fór út fyrir vítateig KR og skallaði boltann frá markinu, en til Garðars:

Ég hef fulla trú á þessu

„Við erum allir í þessu saman, og ég vil ekki nefna nein nöfn. Við eigum að gera mikið betur í þessum stöðum sem upp koma í leiknum. Í sókninni á undan áttum við að skora, en ef menn mæta ekki á nærstöngina þá skorum við ekki. Þá er það ekki tilviljun að við skulum ekki skora. Það eru engar tilviljanir í fótbolta, hann er eins heiðarlegur og hægt er, og í dag töpuðum við og áttum ekkert annað skilið,“ sagði Bjarni. Hann hafði átta daga til að undirbúa KR-liðið fyrir leikinn í kvöld en niðurstaðan varð tap á heimavelli gegn liði sem var í fallsæti. KR er nú tveimur stigum frá fallsæti, og liðin fyrir neðan eiga leik eða leiki til góða. Hefur Bjarni enn trú á því að hann geti náð árangri sem þjálfari KR?

„Ég hef fulla trú á þessu, og við þurfum að sjá til þess að strákarnir hafi fulla trú á þessu áfram. Ég held að þeir hafi trúna, en við erum enn þá að berjast við það að við höldum að við séum betri en við erum, og getum sloppið með eitthvað. Á meðan að svo er fáum við lítið út úr leikjunum. Við þurfum að átta okkur á því að við þurfum alltaf að leggja okkur fram, og vinna vinnuna okkar 100%. Við höfum getuna til að vinna þær stöður sem upp koma, en erum ekki að gera það

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert