Stokka upp spilin og byrja nýtt mót

Gunnlaugur Jónsson sá sína menn vinna dísætan sigur í kvöld.
Gunnlaugur Jónsson sá sína menn vinna dísætan sigur í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Gunnlaugur Jónsson og lærisveinar hans í liði ÍA litu á leikinn við KR í Pepsi-deildinni í kvöld sem nýtt upphaf á leiktíðinni. Eftir tveggja vikna undirbúning, vegna EM-hlés, náðu Skagamenn í þrjú dýrmæt stig með 2:1-sigri í Frostaskjóli.

Útlitið var ekki gott þegar tíu mínútur lifðu leiks, en þá var staðan 1:0 fyrir KR:

„Það var ákveðin seigla með okkur í seinni hálfleik, eftir að við höfðum byrjað hann alveg hræðilega. Við færðumst nær þessu [að jafna metin] þannig að ég var nú ekkert úrkula vonar alla vega,“ sagði Gunnlaugur. Garðar Gunnlaugsson jafnaði metin úr vítaspyrnu á 83. mínútu, og í lok uppbótartíma skoraði Garðar svo ótrúlegt sigurmark. Gunnlaugur lýsir því svona:

„Árni nær geggjuðu útsparki og ég sé að Stefán Logi er kominn út úr marki KR og getur þannig lagað ekkert annað gert en að skalla boltann. Þess vegna var ekkert annað í stöðunni fyrir Garðar en að setja boltann á markið og hann hitti hann frábærlega, nógu hátt til að Stefán næði ekki til boltans, og þetta var gjörsamlega geggjað mark. Ég hafði trú á því, kannski sérstaklega eftir að Garðar, sem hefur átt í basli með vítin, setti mjög öruggt víti. Þá er alltaf „moment“ fyrir markaskorara eins og Garðar að setja sigurmark,“ sagði Gunnlaugur, sem virðist hafa nýtt EM-hléið vel með sínum mönnum, sem höfðu aðeins fengið fjögur stig úr fyrstu sjö leikjum sínum:

Ekki lent í þessu áður á Íslandi

„Það er mjög óvanalegt að þurfa að skipuleggja tvær vikur í miðju móti. Maður hefur ekki lent í því áður, hvorki sem þjálfari né leikmaður hér á landi. Þess vegna var þetta ágætistímapunktur til að hlaða aðeins batteríin og byggja upp markvissa vinnu fyrir þennan leik og komandi leiki. Þetta var tími til að byrja upp á nýtt. Uppskeran var því miður ekki búin að vera góð, og við ósáttir við að vera með fjögur stig, og þess vegna var fínt að stokka upp spilin og byrja nýtt mót,“ sagði Gunnlaugur, ánægður með hvernig til tókst:

„Þetta var nákvæmlega eins og við lögðum upp með. Við lögðum upp með að loka ákveðnum svæðum sem þeir eru mjög góðir í. Vissulega slaknaði aðeins á því í upphafi seinni hálfleiks, og þeir gengu á lagið, en við unnum okkur inn í leikinn og gerðum það virkilega vel. Ég var alveg farinn að sætta mig við jafnteflið, en það er geggjað að ná þremur stigum og sannarlega margt sem við getum tekið með okkur úr þessum leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert