Þurfa að hafa gætur á vængmönnunum

Kennie Choph­art, leikmaður KR, sæk­ir að marki Glenov­an í fyrstu …
Kennie Choph­art, leikmaður KR, sæk­ir að marki Glenov­an í fyrstu umferð Evrópukeppninnar. Þórður Arnar Þórðarson

„Tilfinningin er mjög góð. Það er mikil eftirvænting og tilhlökkun í liðinu,“ sagði Willlum Þór Þórsson, þjálfari KR, þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum. Hann var að hefja lokaundirbúning liðsins fyrir leikinn gegn svissneska liðinu Grasshopper í Evrópudeildinni sem fer fram á KR-vellinum í kvöld klukkan 19:15.

„Við erum búnir að taka hvern leikmann andstæðinganna fyrir og þeirra megináherslur í sókn og vörn.“ 

Meðal leikmanna eru sænski landsliðsmaðurinn Kim Källström og Rúnar Már Sigurjónsson, sem nýlega var keyptur til liðsins fyrir rúmlega 300 milljónir króna. Hann gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir liðið í kvöld. 

Grasshopper er staðsett í Zürich og endaði í fjórða sæti svissnesku deildarinnar á síðustu leiktíð. Liðið hefur unnið flesta titla í sögu deildarinnar en síðustu ár hefur það í besta falli náð öðru, þriðja eða fjórða sæti.  

„Það er oft þannig að við fylgjumst ekki mikið með liðum í Sviss og Austurríki en þetta eru mjög þjálfuð lið og spila á háu tempói. Grasshopper eru með fljóta vængmenn og nýta þá mjög vel. Þegar þeir sprengja inn á miðjuna eru bakverðirnir duglegir að koma upp kantinn og þetta sjáum við mikið í alþjóðlegum fótbolta.“ 

Leikurinn í kvöld er sá fyrri af tveimur en síðari leikurinn verður spilaður í Sviss 21. júlí. Í tveggja leikja umferð getur skipt sköpum á hvaða velli mörkin eru skoruð. 

„Þetta útivallarmark er alltaf svolítið snúið. Um leið og þú vilt ná hagstæðum úrslitum heima þá viltu gera það þannig að þú fáir ekki á þig mark. Við þurfum að vera mjög meðvitaðir um að verjast vel gegn þeim og að halda búrinu hreinu. Ef við höldum búrinu hreinu þá batna líkurnar í útileiknum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert