Flottur leikur hjá FH-liðinu

Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Heimir Guðjónsson þjálfari FH-inga var ánægður með leik sinna manna í leiknum gegn Stjörnunni í Kaplakrika í kvöld en FH-ingar fögnuðu 3:2 sigri og náðu þar með sjö stiga forskoti á toppi Pepsi-deildarinnar.

„Þetta voru þrjú mjög dýrmæt stig sem við tryggðum okkur í kvöld. Mér fannst þetta flottur leikur hjá FH-liðinu. Boltinn gekk vel á milli manna, við sköpuðum okkur góð færi og allur fótboltinn sem spilaður var í þessum leik var af hálfu FH.

Sigurinn var fyllilega sanngjarn og á köflum fannst mér bara vera eitt lið inni á vellinum. Við vorum pínu klaufar í seinni hálfleik. Við höfðum öll tök á leiknum en létum þá jafna metin. En eins og í leiknum á móti Fjölni sýndum við góðan karakter og ég held klárlega að þetta sé með betri leikjum hjá okkur í sumar,“ sagði Heimir við mbl.is eftir leikinn en með sigrinum færðust FH-ingar skrefi nær Íslandsmeistaratitlinum.

Spurður hvort FH sé ekki komið með pálmann í hendurnar sagði Heimir:

„Ég neita því ekki að við erum í góðri stöðu en það eru 18 stig eftir í pottinum og við eigum eftir að mæta góðum liðum. Við þurfum bara að vera einbeittir og líta bara á næsta leik. Það var virkilega gott að ná að vinna liðin sem eru fyrir aftan okkur og nú verðum við bara að halda áfram og klára mótið með stæl,“ sagði Heimir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert