Ísland fagnaði EM-sætinu með stæl

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann stórsigur á Slóveníu, 4:0, þegar þjóðirnar mættust í undankeppni Evrópumótsins á Laugardalsvelli í kvöld. Skömmu fyrir leikinn var ljóst að sæti Íslands á EM væri í höfn og fögnuðu stelpurnar okkar þeim tíðindum með stæl með öruggum sigri. Liðið hefur ekki enn fengið á sig mark í undanriðlinum.

Ísland tók öll völd á vellinum strax í byrjun leiks. Upplegg Slóvena var greinilega að láta vaða á markið um leið og boltinn vannst, sem skapaði litla hættu við íslenska markið. Á 11. mínútu kom fyrsta mark leiksins og það var sannarlega af skrautlegri gerðinni.

Vinstri bakvörðurinn Hallbera Guðný Gísladóttir fékk þá boltann nær miðjum vellinum en vítateig Slóvena. Hún ætlaði nær örugglega að gefa fyrir markið, en boltinn endaði í háum boga yfir markvörð Slóvena og söng í netinu. Kostulegt mark og staðan 1:0 fyrir Ísland.

Markið gaf tóninn fyrir framhaldið og á 20. mínútu kom annað markið. Hallbera átti einnig drjúgan þátt í því, en hún tók þá hornspyrnu inn á teiginn þar sem Dagný Brynjarsdóttir kom askvaðandi og skallaði boltann í netið. Staðan 2:0 fyrir Ísland.

Slóvenar bitu aðeins frá sér þegar leið á fyrri hálfleikinn en sköpuðu sér ekki nein færi að ráði. Það var því góð staða sem íslenska liðið hafði þegar flautað var til hálfleiks, 2:0.

Draumabyrjun í síðari hálfleik

Síðari hálfleikur hefði ekki getað byrjað betur hjá íslenska liðinu, því eftir réttar 40 sekúndur kom þriðja markið. Aftur var það samvinna Hallberu og Dagnýjar, en Hallbera sendi þá fyrir og Dagný skallaði að marki. Hættan virtist þó lítil og boltinn fór hátt upp í loft, en fór engu að síður yfir markvörð Slóvena sem misreiknaði sig illa. Staðan 3:0 fyrir Ísland.

Ísland stjórnaði leiknum líkt og í fyrri hálfleik og skapaði sér mörg ágæt marktækifæri. Það var því von á fleiri mörkum og á 68. mínútu kom það fjórða þegar varamaðurinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skallaði fyrirgjöf Hólmfríðar Magnúsdóttur frá hægri í netið af markteig.

Ísland fékk sín færi eftir þetta en mörkin voru ekki fleiri, lokatölur 4:0. Það var skiljanlega mikið fagnað þegar flautað var til leiksloka. Öruggur sigur í höfn og sæti Íslands á EM, sem tryggt var skömmu fyrir leikinn, var því fagnað með stæl.

Ísland er með fullt hús stiga á toppi undanriðilsins og það sem meira er, liðið hefur ekki fengið á sig mark í öllum sjö leikjunum. Ísland er þremur stigum fyrir ofan Skota, sem mæta einmitt á Laugardalsvöllinn á þriðjudag þegar síðasti leikur Íslands í undanriðlinum fer fram.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld og þá verður nánar fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Ísland 4:0 Slóvenía opna loka
90. mín. Kaja Eržen (Slóvenía) á skot framhjá +2. Fékk boltann í kjölfarið en hitti ekki markið. Þar skall hurð nærri hælum!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert