Erfitt að lenda í svona stöðu

„Það er náttúrulega leiðinlegt að enda tímabilið svona, á tapi, en við hefðum líka þurft að gera færri jafntefli,“ sagði Svava Rós Guðmundsdóttir sem átti mjög góðan leik fyrir Breiðablik í dag þegar liðið tapaði 1:0 fyrir Val í lokaumferð Pepsi-deildarinnar.

Þetta var fyrsta tap Breiðabliks í sumar en liðið gerði sex jafntefli í 18 leikjum. Þar með endaði Breiðablik fimm stigum á eftir meisturum Stjörnunnar en í 2. sæti. Örlögin fóru úr höndum Breiðabliks þegar liðið gerði 1:1-jafntefli við Stjörnuna í þriðju síðustu umferðinni, en Svava segir leikmenn hafa haldið í vonina um að verja titilinn:

„Við ætluðum að klára okkar og vona svo það besta. Það er erfitt að lenda í svona stöðu, að þurfa að treysta á aðra, og því miður féll þetta ekki með okkur,“ sagði Svava.

Tímabilinu er ekki lokið hjá henni og Blikum því fram undan eru leikir í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu við stórlið Rosengård frá Svíþjóð. Svava segir Breiðablik klárlega eiga möguleika í þeim leikjum, en rætt er við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert