Hádramatískur sigur á Finnum

Ísland vann ótrúlegan, ævintýralegan, hádramatískan sigur á Finnlandi, 3:2, í öðrum leik sínum í undankeppni HM karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli í  kvöld. Ísland skoraði tvö mörk á lokamínútum leiksins.

Ísland er því með fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki sína í riðlinum og hefur ekki tapað leik á Laugardalsvelli síðan í júní 2013, eða í síðustu 12 heimaleikjum sínum.

Sigurmark Íslands var í skrautlegra lagi og það kom aðeins nokkrum sekúndum fyrir leikslok. Ari Freyr Skúlason átti aukaspyrnu og sendi boltann á Kára Árnason sem skallaði til Ragnars Sigurðssonar. Af Ragnari fór boltinn á marklínu finnska marksins, en líklega ekki yfir hana, og markvörðurinn Lukas Hradecky virtist halda boltanum þegar Alfreð Finnbogason potaði boltanum áfram yfir línuna. Norskur dómari leiksinis, Svein Oddvar Moen, dæmdi mark og allt ætlaði um koll að keyra á Laugardalsvelli. Bæði ærðust Íslendingar af fögnuði og Finnar af reiði yfir dómnum.

Skömmu áður hafði Ísland jafnað metin, eftir að hafa sótt linnulítið í seinni hálfleik. Alfreð Finnbogason skoraði þá með skalla eftir fyrirgjöf Gylfa Þórs Sigurðssonar, eftir að Ísland hafði verið undir í 50 mínútur.

Íslendingar hefðu vel getað verið búnir að jafna metin fyrr en að því spyr engin nú. Kári náði til að mynda í vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik en Gylfi þrumaði í þverslá, og Gylfi átti sömuleiðis frábært skot utan teigs í stöng og út.

Finnar voru 2:1 yfir eftir fyrri hálfleikinn. Þeir komust yfir með skallamarki Teemu Pukki á 21. mínútu en Kári jafnaði metin með hörkuskalla eftir hornspyrnu Jóhanns Berg Guðmundssonar. Aðeins rúmri mínútu eftir mark Kára skoraði Robin Lod með skoti rétt utan teigs, framhjá Ögmundi Kristinssyni sem stóð í marki Íslands í fjarveru Hannesar Þórs Halldórssonar sem var meiddur.

Eins og fyrr segir var Ísland mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik og það skilaði sér að lokum, en hefði ekki getað staðið tæpara.

Ísland mætir næst Tyrklandi á Laugardalsvelli á sunnudagskvöld kl. 18.45.

Ísland 3:2 Finnland opna loka
90. mín. Alfreð Finnbogason (Ísland) skorar 2:2 - JÁÁÁÁ! Ísland tók stutta hornspyrnu og Gylfi átti svo frábæra fyrirgjöf yfir á fjærstöng þar sem Alfreð kom boltanum í markið af stuttu færi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert