Aldrei gaman að tapa úrslitaleik

Guðlaugur Victor Pálsson, aftarlega fyrir miðju, á æfingu íslenska liðsins …
Guðlaugur Victor Pálsson, aftarlega fyrir miðju, á æfingu íslenska liðsins í Kína. Ljósmynd/Wu Zhi Zhao

„Það er alltaf svekkjandi að tapa,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 1:0 ósigur Íslands gegn Síle í úrslitaleik China Cup í morgun.

 Sjá frétt mbl.is: Ísland fékk silf­ur í Kína

„Það er aldrei gaman að tapa, og sérstaklega í úrslitaleik. Það er ekki oft sem maður hefur spilað úrslitaleik á ferlinum, en þetta var fín reynsla fyrir alla leikmenn og mjög gaman að taka þátt í þessu. Við tökum annað sætið bara, með bros á vör,“ sagði Guðlaugur Victor.

Hann segir að það hafi vantað herslumuninn hjá íslenska liðinu, sem annars hafi staðið sig mjög vel í leiknum.

„Við lögðum þennan leik vel upp og vissum að Síle myndi vera meira með boltann, enda með tekníska leikmenn sem eru góðir í fótbolta. Þeir ná að brjóta okkur upp einu sinni í fyrri hálfleik þar sem þeir náðu að skora, en annars vorum við mjög sterkir varnarlega. Það vantaði líka það síðasta í sóknarleiknum hjá okkur, en í heildina var þetta bara fínt gegn sterku liði fannst mér.“

Guðlaugur Victor Pálsson í baráttu á miðsvæðinu gegn Kína.
Guðlaugur Victor Pálsson í baráttu á miðsvæðinu gegn Kína. AFP

Búið að vera algjört ævintýri

Guðlaugur Victor var í byrjunarliðinu í báðum leikjum Íslands í ferðinni, í sigrinum á Kína á þriðjudag og svo nú gegn Síle. Hann var að spila sinn fimmta og sjötta landsleik og var í því hlutverki sem Aron Einar Gunnarsson hefur alla jafna sinnt á miðjunni.

Guðlaugur stóð vel fyrir sínu og vonast til þess að hafa bankað enn frekar á landsliðsdyrnar.

„Já, að sjálfsögðu vona ég það. Ég gerði mitt besta og svo verður bara að koma í ljós hvernig framhaldið verður. Svo einfalt er það,“ sagði Guðlaugur Victor, sem er mjög ánægður með ferðina til Kína.

„Þetta er búið að vera rosalega fínt. Það var tekið mjög vel á móti okkur og búið að hugsa vel um okkur, svo það er ekki hægt að kvarta yfir einu eða neinu. Þetta hefur verið algjört ævintýri,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert