Gefur Thelmu og Sigríði tækifæri

Freyr Alexandersson
Freyr Alexandersson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, kynnti í dag leikmannahópinn sem fer til Portúgals og keppir í Algarve-bikarnum. Freyr segist horfa til frammistöðu frekar en úrslita að þessu sinni á mótinu. 

„Við þurfum að fá eins mörg svör í þessu móti og við mögulega getum. Þegar við förum í leikina á móti Slóvakíu og Hollandi í apríl þá þurfum við ekki að prófa einhverja hluti heldur getum við þá reynt að fínpússa atriði sem við höfum þegar prófað. Mér finnst mikilvægt að liðið verði á þeim stað þegar við förum í þá leiki. Þá getum við einbeitt okkur betur að litlum atriðum og af meiri nákvæmni. Ég er alveg til í að lenda á veggjum í Portúgal og leysa þær þrautir sem kunna að koma upp,“ sagði Freyr þegar mbl.is ræddi við hann á blaðamannafundi í dag. 

Spurður um hvaða leikmenn hann hefði viljað velja sem ekki er að finna í hópnum sem fer til Portúgals þá nefndi Freyr fjögur nöfn. „Harpa Þorsteinsdóttir er barnshafandi og Hólmfríður Magnúsdóttir er meidd. Þær hefðu verið í hópnum en einnig eru Ásgerður Stefanía Baldursdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir meiddar en þær hafa verið í kringum liðið. Annars veit ég ekki af neinum stórvægilegum meiðslum.“

Flestar í leikmannahópnum þekkja landsliðsverkefnin vel en Freyr minntist sérstaklega á tvo leikmenn sem hann tekur inn í hópinn að þessu sinni. „Thelma Björk Einarsdóttir er að koma til baka eftir krossbandsslit en það kom bakslag í endurhæfinguna hjá henni oftar en einu sinni. Hún er í gríðarlega góðu standi og hefur komið mjög vel út úr öllum mælingum hjá okkur. Auk þess er hún að spila mjög vel með Val á undirbúningstímabilinu. Thelma er klókur leikmaður og ég hlakka til að sjá hvar hún stendur núna á alþjóðlegum mælikvarða. Sigríður Lára Garðarsdóttir spilaði vel með ÍBV í fyrra og heldur áfram að bæta sinn leik. Hún var með okkur í æfingabúðum bæði í október og janúar og stóð sig vel. Hún kemur einnig vel út úr öllum líkamlegum mælingum og mig langar að gefa henni tækifæri,“ sagði Freyr Alexandersson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert