„Gott skref fyrir mig“

Guðmundur í búningi Norrköping.
Guðmundur í búningi Norrköping. Ljósmynd/ifknorrkoping.se

„Það verður gaman að læra nýtt tungumál,“ sagði Selfyssingurinn Guðmundur Þórarinsson, betur þekktur sem Gummi Tóta, við mbl.is skömmu eftir að hann hafði skrifað undir þriggja ára samning við sænska úrvalsdeildarliðið Norrköping.

Guðmundur, sem er 24 ára gamall miðjumaður, kemur til Norrköping eftir eins árs dvöl hjá norska meistaraliðinu Roseborg þar sem hann lék 30 leiki og skoraði tvö mörk en þar áður lék hann í tvö ár með Nordsjælland í Danmörku og atvinnumannaferilinn hóf hann hjá norska liðinu Sarpsborg sem hann spilaði tvö tímabil.

„Ég meiddist á annarri æfingunni með Rosenborg á undirbúningstímabilinu í byrjun janúar en liðband í hnénu tognaði. Einbeitingin var 100% á Rosenborg þar sem ég ætlaði að vinna mig inn í liðið á fullu þó svo ég hafi fengið fullt af spiltíma með liðinu á síðasta tímabili. Fyrir nokkru hafði svo Norrköping samband við Rosenborg og ég skynjaði það á Rosenborg að það taldi  best fyrir mína fótboltaframtíð að fara til liðsins.

Eftir að hafa rætt við þjálfara Norrköping þá leist mér mjög vel á það sem hann hafði fram að færa. Plönin hans henta mér mjög vel sem leikmanni og í ljósi þess að ég var orðinn á eftir varðandi samkeppnina hjá Rosenborg þar sem liðið hefur tekið inn nokkra nýja leikmenn þá fannst mér þetta rétt skrefið að fara til Norrköping,“ sagði Guðmundur við mbl.is en hann er enn að jafna sig af meiðslunum en reiknar með því að verða orðinn góður af þeim eftir um þrjár vikur.

Guðmundur Þórarinsson
Guðmundur Þórarinsson mbl.isÓmar Óskarsson


Guðmundur vann tvöfalt með Rosenborg á síðustu leiktíð en fyrir hjá liðinu er Matthías Vilhjálmsson en á dögunum fór Hólmar Örn Eyjólfsson frá liðinu og samdi við ísraelska liðið Maccabi Haifa. Norrköping hafnaði í 3. sæti í sænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en liðið varð sænskur meistari fyrir tveimur árum. Jón Guðni Fjóluson gekk til liðs við Norrköping í fyrra og á dögum samdi Blikinn ungi Alfons Sampsted við liðið.

Verð lykilmaður

„Norrköping er stærri klúbbur en ég hélt í rauninni og það er mikil saga á bak við hann. Liðið varð í þriðja sæti í fyrra og spilar í Evrópukeppninni í ár sem er mjög spennandi. Liðið sýndi mikinn áhuga á að fá mig svo það er ljóst að mér er ætlað hlutverk með því,“ sagði Guðmundur en keppni í sænsku úrvalsdeildinni hefst í byrjun janúar og fyrsti leikur Norrköping er gegn Hammarby þar sem þrír Íslendingar spila, markvörðurinn Ögmundur Kristinsson, bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson og miðju- og sóknarmaðurinn Arnór Smárason.

„Ég held að sænska deildin sé talin sterkari en sú norska en vissulega er Rosenborg gríðarlega sterkt og eitt það besta á Norðurlöndunum. Ég er bara spenntur fyrir þessari nýju áskorun og tel þetta gott skref fyrir mig að koma til Norrköping þar sem ég verð lykilmaður. Nú er aðalmálið að ná sér góðum af þessum meiðslum og mæta öflugur til leiks þegar deildin fer af stað,“ sagði Gummi Tóta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert