Ánægður með stöðuna á hópnum

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Wu Zhi Zhao

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, segir stöðuna á leikmannahópnum vera góða eftir komuna til Parma. Kári Árnason og Arnór Ingvi Traustason tóku báðir fullan þátt í æfingum liðsins í gærkvöldi og í dag.

„Allir voru með á æfingunni í gær en þeir sem spiluðu með sínum félagsliðum á sunnudag tóku létt á því í gær. Við höfðum mestar áhyggjur af Kára Árna og Arnóri Ingva varðandi meiðsli en þeir voru báðir með alla æfinguna og stóðu sig vel. Þeir eru aftur með í dag og því kom ekkert bakslag eftir æfinguna í gærkvöldi. Við erum því ánægðir með stöðuna eins og hún er,“ sagði Heimir þegar mbl.is spjallaði við hann í dag. 

Undirbúningurinn fyrir leikinn gegn Kósóvó er óvenjulegur fyrir landsliðið að því leytinu til að um er að ræða andstæðing sem er með sitt lið í mótun enda er um fyrstu undankeppni Kósóvó að ræða. „Já það er óvenjulegt fyrir alla en kosturinn er sá að við höfum þó séð þá í fjórum mótsleikjum. Við höfum séð hvað þeir eru að reyna að gera. Ég hefði ekki viljað vera í sporum Finna sem fengu þá í fyrsta leik og vissu ekki hvaða leikmönnum þeir myndu mæta. Kósóvó er komið með leikmannahóp sem við höfum skoðað en við teljum okkur vita töluvert meira um þá heldur en þegar riðillinn fór af stað. Það er gaman að fylgjast með því þegar nýtt lið verður til og verður smám saman betra og betra,“ sagði Heimir enn fremur. 

Á föstudaginn mætir Ísland liði Kósóvó í undankeppni HM og fer leikurinn fram í Albaníu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert