Arnar fór vel yfir lið Kósóvó

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Landsliðsfyrirliðinn, Aron Einar Gunnarsson, segir að eftirvæntingin sé að byggjast upp í landsliðshópnum en þegar Ísland mætir Kósóvó á föstudaginn verða um fjórir mánuðir liðnir frá síðasta mótsleik. 

„Ég held að menn séu bara spenntir fyrir þessu verkefni sem er reyndar öðruvísi en önnur því við rennum svolítið blint í sjóinn. Við erum vanir því að fara vel yfir andstæðingana og horfa á margar videóupptökur. Arnar Bill (sem njósnaði um lið Kósóvó fyrir landsliðsþjálfarana) fór vel yfir Kósóvó á fundi í gær. Hann sýndi okkur kafla úr síðustu þremur leikjum þeirra og fór vel yfir styrkleika og veikleika,“ sagði Aron við mbl.is og hann er margs vísari eftir kynningu Arnars á liði andstæðinganna sem aðeins hefur leikið fjóra mótsleiki í sögu þjóðarinnar. 

„Það er margt sem þarf að varast. Kósóvó hefur sankað að sér leikmönnum sem eru með mikla reynslu og hafa spilað fyrir fín félög í Evrópu. Þetta verður því ekki auðveldur leikur og við þurfum að gera okkur grein fyrir því. Engu að síður er staðan þannig að ef við ætlum okkur að ná öðru af tveimur efstu sætunum í riðlinum þá þurfum við að vinna leiki sem þennan. Ég er fullur tilhlökkunar og finn að menn eru tilbúnir í slaginn.“

Staða Íslands í undankeppninni er spennandi og riðillinn býsna jafn þótt Króatía skeri sig nokkuð úr. Íslandi tapaði fyrir Króatíu úti og gerði 1:1 jafntefli við Úkraínu úti. Heimaleikirnir gegn Finnlandi og Tyrklandi unnust báðir: 3:2 og 2:0. „Við erum í ágætri stöðu og þetta er lykilleikur upp á framhaldið að gera. Ef okkur tekst vel upp þá verður leikurinn á Laugardalsvelli í júní ennþá skemmtilegri fyrir vikið,“ sagði Aron Einar Gunnarsson þegar mbl.is tók hann tali í Parma í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert