Emil færist aftar á völlinn hjá Udinese

Emil Hallfreðsson og Hörður Björgvin Magnússon.
Emil Hallfreðsson og Hörður Björgvin Magnússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Emil Hallfreðsson hefur að undanförnu mátað sig í nýju hlutverki hjá Udinese í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu. Emil, sem lengst af hefur flokkast undir sóknartengilið eða kantmann á sínum ferli, hefur að undanförnu leikið sem varnartengiliður með Udinese.

„Ég hef spilað aftarlega á miðjunni undanfarna mánuði. Við fengum nýjan þjálfara eftir tíu leiki í vetur. Hann hefur látið mig spila fyrir framan vörnina og hefur það gengið ótrúlega vel. Ég er því að læra nýja stöðu sem er skemmtilegt enda gaman að takast á við ný verkefni. Síðustu tíu árin eða svo hef ég mest spilað vinstra megin í þriggja manna miðju og þá meira sem sóknarmaður. Eftir að hafa spilað aftar á miðjunni er gaman að geta leyst fleiri stöður og ég treysti mér í hvað sem er,“ sagði Emil þegar mbl.is spjallaði við hann í Parma í gær þar sem landsliðið er við æfingar. 

„Mér hefur gengið mjög vel og það gerist ekki af sjálfu sér að vinna sér sæti í liðinu. Stígandi hefur verið í leik liðsins undanfarið en við gerðum jafntefli við Juve heima og unnum síðustu tvo leiki. Ég er því nokkuð sáttur við tímabilið hingað til en enn eru níu leikir eftir og við stefnum að því að komast aðeins ofar í töflunni. Við stefnum að því.“

Tvo kantmenn vantar í íslenska liðið að þessu sinni, þá Birki Bjarnason og Jóhann Berg Guðmundsson, en þeir voru til að mynda í byrjunarliðinu í öllum leikjunum á EM í Frakklandi. Sér Emil fyrir sér að taka aðra stöðuna gegn Kósóvó á föstudaginn?

„Já ég sé það alveg fyrir mér. Ég myndi gera það ef ég væri Heimir,“ sagði Emil og glotti en bætti við „Það verður bara að koma í ljós. Ég er klár í hvað sem er með íslenska landsliðinu. Ég hef ekki byrjað inni á í alvöru landsleik í tvö ár að ég held. Ég hef því verið að bíða eftir tækifærinu og þegar það kemur ætla ég að vera tilbúinn. Ég væli ekki yfir því hvort ég fái tækifæri eða ekki en ef það kemur þá ætla ég að nýta mér það, hvort sem það er á kantinum eða á miðjunni. Þótt ég hafi ekki spilað á kantinum með félagsliði í mörg ár þá tel ég mig geta leyst það vel enda spilaði ég átta leiki af tólf á kantinum í síðustu undankeppni.“

Leikurinn gegn Kósóvó á föstudaginn í undankeppni HM er óvenjulegur að því leytinu til að andstæðingurinn er að taka þátt í sinni fyrstu undankeppni og þar er á ferðinni landslið í mótun þar sem smám saman bætast við fleiri leikmenn til að velja úr. „Já það er alveg rétt hjá þér að þetta er svolítið spes. Þeir hafa bara spilað fjóra mótsleiki og eru að tína til leikmenn héðan og þaðan. Það virðist ganga ágætlega hjá þeim að fá leikmenn. Þeir hafa fengið fullt af fínum fótboltamönnum sem eru að spila með góðum liðum hér og þar í Evrópu. Kannski er þeirra helsti vandi að stilla saman strengi þar sem þeir hafa ekki spilað lengi saman. Kannski er það eitthvað sem við höfum fram yfir þá. Hvað varðar getu í fótbolta þá erum við ekki endilega með einhverja yfirburði yfir þá. Við þurfum að passa okkur og vera meðvitaðir um að við séum að fara í hörkuleik. Ég hef fulla trú á því að við verðum klárir í slaginn,“ sagði Emil Hallfreðsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert