Mikilvægar tvær vikur framundan

Willum Þór Þórsson fer með KR-ingum til Spánar á morgun.
Willum Þór Þórsson fer með KR-ingum til Spánar á morgun. Ljósmynd/Andy Müller

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, var skiljanlega sáttur eftir 4:0-sigur á Grindavík í Egilshöll í dag sem tryggði KR-ingum sigur í Lengjubikar karla í knattspyrnu í sjöunda sinn.

„Já, ég er það. Grindavík spilaði 5-3-2 með fljóta framherja, bökkuðu vel á okkur og lokuðu í raun öllum svæðum til þess að spila í. Við þurftum svo að vera varkárir í því þegar við töpuðum boltanum að þeir voru fljótir fram,“ sagði Willum.

Staðan var 1:0 í hálfleik, en KR-ingar höfðu þó haft nokkra yfirburði í leiknum. Það sýndi sig eftir hlé.

„Þetta var hörkuleikur framan af og ég held að lokatölurnar gefi ekki rétta mynd af honum. Mark númer tvö hjálpaði okkur mikið, það var eiginlega lykilatriðið að ná því og þá varð þetta auðveldara,“ sagði Willum, en þetta gefur KR gott veganesti fyrir Pepsi-deildina sem hefst 30. apríl.

„Það er hálfur mánuður í mót og verið fínn stígandi í þessu hjá okkur. Liðið hefur þróast og mótast, en það eru mikilvægar tvær vikur framundan og hellingur af hlutum að vinna í,“ sagði Willum.

KR fer á morgun í æfingaferð til Spánar, en það þykir óvenjulega seint. „Þetta er svolítið nýtt að fara svona stuttu fyrir mót. En við ákváðum að prófa það, lið í Evrópu eru að gera þetta svo af hverju ekki við.“

Aðspurður segist Willum vera ánægður með hópinn sem hann er með í höndunum og það þyrfti eitthvað sérstakt til þess að hann myndi bæta við sig leikmanni fyrir sumarið.

„Við erum alveg opnir fyrir því ef virkilega góður leikmaður er í boði, en annars er ekkert stress í því. Við gáfum okkur góðan tíma í að finna framherja, Tobias Thomsen, og hann er að koma með mjög gott hugarfar inn í þetta,“ sagði Willum við mbl.is, en þess má geta að Thomsen skoraði tvö marka KR í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert