Alltaf möguleikar til staðar

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. mbl.is/Eggert

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, er ánægður með að fá að mæta Færeyingum í undankeppni HM 2019 en Færeyingar eru nú í fyrsta sinn með í undankeppni HM kvenna.

Ísland leikur í 5. riðli með Þýskalandi, Tékklandi, Slóveníu og Færeyjum og verður fyrsti leikurinn gegn Færeyingum á Laugardalsvellinum þann 18. september.

„Það eru alltaf möguleikar til staðar og okkar möguleiki er sá að verða eitt af þeim fjórum liðum sem er með bestan árangur í 2. sæti og við verðum að einbeita okkur að því til að komast í lokakeppni HM í Frakklandi. Á sama tíma munum við láta Þjóðverja hafa verulega fyrir hlutunum í baráttunni um efsta sætið,“ segir Freyr á vef KSÍ.

„Við þekkjum lið Slóveníu mjög vel og Tékkland er með gott lið sem er á uppleið. Þýskaland er auðvitað lið sem enginn vildi fá en við lítum svo á að við höfum engu að tapa í þeim leik og það væri ágætt að vera sú þjóð sem sér til þess að Þýskaland fari ekki á HM, sagði Freyr.

Leikir Íslands í undankeppni HM 2019:

18. september 2017 Ísland - Færeyjar 
20. október 2017 Þýskaland - Ísland 
24. október 2017 Tékkland - Ísland
6. apríl 2018 Slóvenía - Ísland 
10. apríl 2018 Færeyjar - Ísland 
11. júní 2018 Ísland - Slóvenía 
1. september 2018 Ísland - Þýskaland 
4. september 2018 Ísland - Tékkland 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert