Tvö verða vonsvikin í haust

Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrra.
Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrra. mbl.is/Eggert

Baráttan um Íslandsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu var æsispennandi fram í lokaumferð í fyrra. Stjarnan stóð að lokum uppi sem sigurvegari en Breiðablik varð í 2. sæti þrátt fyrir að tapa aðeins einum leik allt sumarið, gegn Val í lokaumferðinni. Valskonum, sem urðu í 3. sæti í fyrra, er spáð titlinum í ár en ljóst er að þessi þrjú lið stefna öll að sama marki.

Keppni í Pepsi-deild kvenna hefst í dag með fjórum leikjum. Valur sækir Þór/KA heim kl. 17.45 en kl. 19.15 tekur Breiðablik á móti FH og Stjarnan mætir nýliðum Hauka í Hafnarfirði. Fylkir og Grindavík mætast svo í Árbæ og á morgun leika ÍBV og KR kl. 18 í Eyjum. Morgunblaðið lýkur nú þriggja daga umfjöllun sinni um mótið með því að skoða efstu þrjú lið síðasta árs; Stjörnuna, Breiðablik og Val.

Án fyrirliðans og markadrottningarinnar

Fyrirliðinn Ásgerður Stefanía Baldursdóttir og markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir hafa verið í forgrunni í mikilli titlasöfnun Stjörnunnar síðustu ár. Ljóst er að liðið byrjar mótið í ár án þeirra beggja og Ásgerður verður á hliðarlínunni í allt sumar þar sem hún er barnshafandi. Harpa, sem missti af síðustu tveimur umferðum mótsins í fyrra af sömu ástæðum, ól son í lok febrúar og vinnur nú að því að koma sér aftur af stað. Hún hefur hins vegar ekki æft með liðinu í aðdraganda mótsins og óvíst hvenær hún mætir til leiks. Miklu máli skiptir fyrir Stjörnuna að Harpa geti látið til sín taka í sumar en hún hefur verið í hálfgerðum sérflokki síðustu ár og gerði 20 mörk í 16 leikjum í fyrra.

Hvort sem Harpa finnur sitt fyrra form eða ekki þá virðist enginn skortur á markaskorurum í Garðabæ. Félagið fékk til sín Guðmundu Brynju Óladóttur frá Selfossi í haust, og þrátt fyrir að hún hafi verið meidd stóran hluta síðasta tímabils nýtti hún tækifæri sitt með landsliðinu vel í vor. Donna Key Henry er eldfljótur kantmaður og einn af betri sóknarmönnum deildarinnar, og á hinum kantinum verður væntanlega hin 17 ára Agla María Albertsdóttir sem átti mjög gott tímabil í fyrra og fékk tækifæri með A-landsliðinu í vor. Fremst á miðjunni er Katrín Ásbjörnsdóttir, sem gerði 9 mörk í 12 leikjum í fyrra, er án meiðsla og ætlar að eiga sína bestu leiktíð á ferlinum. Hin fjölhæfa Ana Cate, sem oftast leikur sem hægri bakvörður, skilar sömuleiðis alltaf mörkum. Telma Hjaltalín Þrastardóttir, sem kom frá Breiðabliki í vetur, sleit aftur á móti krossband í hné í annað sinn á ferlinum og verður ekki með í sumar.

Nánari umfjöllun um lið Stjörunnar, Breiðabliks og Vals fyrir Pepsi-deild kvenna sem hefst í kvöld má finna í íþrótttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert