Kappsemi og dugnaður

Agla María Albertsdóttir og Laufey Björnsdóttir í leiknum á þriðjudagskvöld.
Agla María Albertsdóttir og Laufey Björnsdóttir í leiknum á þriðjudagskvöld. mbl.is/Golli

Kastljósinu er beint að Öglu Maríu Albertsdóttur, leikmanni Stjörnunnar, í íþróttablaðinu í dag að lokinni 4. umferð í Pepsi-deildinni í knattspyrnu. Agla átti sinn þátt í góðum 3:1-útisigri liðsins á Val á Hlíðarenda. Skoraði þriðja og síðasta mark Stjörnunnar auk þess að leggja upp fyrsta mark liðsins fyrir Sigrúnu Ellu Einarsdóttur.

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, bendir á að Agla hafi farið af velli vegna meiðsla í 1. umferðinni, misst af leiknum í 2. umferð og komið inn á sem varamaður í síðustu umferð. Hún hafi því verið fljót að hrista þau skakkaföll af sér og komast í takt við liðið.

„Agla átti mjög flottan leik og var eitt púslið í spilinu í sigrinum á Val. Hún er með góða liðsfélaga með sér og þegar allir hjálpast að er hægt að gera góða hluti. Sigurinn á Val var sigur liðsheildarinnar en jafnframt besti leikur Öglu á tímabilinu. Hún meiddist náttúrulega í fyrsta leik á móti Haukum og fór út. Spilaði ekki á móti KR og kom inn á gegn ÍBV. Hún hefur því spilað tvo heila leiki af fyrstu fjórum og það var gaman að sjá hversu sterk hún var þrátt fyrir að hafa misst úr. Það sýnir hversu mikið hún leggur á sig til að vera í standi og vinnur í sínum málum.“

17 ára á öðru ári í deildinni

Agla er aðeins á átjánda ári en hefur stimplað sig hratt og örugglega inn í öflugt lið Íslandsmeistaranna. „Hún er leikmaður sem er að skila sér upp í meistaraflokk hjá okkur þótt hún sé enn þá á miðárinu í 2. flokki. Hún hefur staðið sig geysilega vel, bæði í fyrra og nú í upphafi þessa móts. Þrátt fyrir ungan aldur er hún með stórt hlutverk í okkar hópi,“ sagði Ólafur og það kom honum ekki á óvart þegar hún var kölluð inn í A-landsliðið í vetur.

Nánar er fjallað um Öglu Maríu Albertsdóttur, leikmann fjórðu umferðar Pepsi-deildar kvenna að mati blaðsins, í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert