„Draumabyrjun fyrir mig“

Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þór/KA og ÍBV mættust í dag í sjöttu umferð Pepsi-deildar kvenna. Leiknum lauk með 3:1 sigri Þórs/KA. Mbl.is náði tali af Söndru Maríu Jessen sem gerði eitt marka Þórs/KA í leiknum.

„Heilt yfir var spilamennska okkar mjög góð, við áttum marga góða kafla. Auðvitað er margt sem er hægt að bæta í okkar leik og okkar leikkerfi en heilt yfir erum við bara sáttar,“ sagði Sandra.

Sandra var að vonum ánægð að skora sitt fyrsta mark í sumar eftir að vera komin aftur á ferðina vegna meiðsla, en hún kom inn á í hálfleik þegar staðan var jöfn 1:1. „Já þetta er draumabyrjun fyrir mig en þetta var fyrst og fremst liðssigur hjá okkur.“

Eftir leikinn situr Þór/KA á toppi deildarinnar með fullt hús stiga. Hefur frábær byrjun liðsins komið leikmönnum á óvart?

„Nei við vissum allan tímann að við gátum þetta. Það var bara spurning um að fá fólk til að trúa á þetta og við erum svo sannarlega búnar að gera það núna. Við erum búnar að fá á okkur tvö mörk í sumar, bæði úr vítum sem hlýtur að segja eitthvað. Fólk er oft að efast um að það að hafa bara þrjá í vörn virki en þetta leikkerfi hentar okkur vel enda erum við að spila vel.“

Næsti leikur Þórs/KA er leikur gegn Stjörnunni í Garðabæ. Spurð um þann leik sagði Sandra:

„Það er hörkuleikur. Það er bara gamla góða klisjan, næsti leikur er alltaf sá mikilvægasti en við vitum að við erum að fara á erfiðan útivöll og við þurfum að vera tilbúnar í að taka þrjú stig þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert