Okkar langbesti leikur í sumar

Atli Guðnason hefur hér betur gegn Jóhanni Laxdal í Kaplakrika …
Atli Guðnason hefur hér betur gegn Jóhanni Laxdal í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Golli

„Þetta var virkilega góður sigur hjá okkur og án efa var þetta langbesti leikur okkar í sumar,“ sagði FH-ingurinn Atli Guðnason við mbl.is eftir 3:0 sigur Íslandsmeistara FH gegn Stjörnunni í 6. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld.

„Ég var virkilega ánægður með frammistöðu okkar í kvöld. Við byrjuðum leikinn af miklum krafti og það er ekki oft svo við byrjum leiki með þessum hætti. Þetta var ákaflega þýðingarmikill sigur. Við fórum upp um fjögur sæti og nálguðumst toppliðin. Við vissum vel hversu mikið var í húfi. Við máttum alls ekki missa Stjörnuna lengra frammúr okkur,“ sagði Atli, sem átti virkilegan góðan leik í heilsteyptu og öflugu liði FH-inga í kvöld.

„Burtséð frá því hvaða leikmönnum Stjarnan tefldi fram þá urðum við að vera klárir og við vorum það svo sannarlega. Ég ætla rétt að vona að þessi sigur komi okkur á sigurbrautina. Það er alltaf pressa á FH fyrir hvaða leik sem er en við vorum meðvitaðir um það að við mættum alls ekki tapa. Ég vissi það að við yrðum tilbúnir í þennan leik og það var gott að vinna Stjörnuna á jafn sannfærandi hátt og raun bar vitni,“ sagði Atli Guðnason, sem var besti leikmaður FH í annars mjög góðri liðsheild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert