Emil í viðræðum um nýjan samning

Emil Hallfreðsson.
Emil Hallfreðsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson hefur hafið viðræður við ítalska liðið Udinese um framlengingu á samningi sínum en hann rennur út á næsta ári.

Emil samdi við Udinese í janúar á síðasta ári eftir að hafa spilað með Verona í fimm ár þar sem hann tók þátt í ótrúlegum uppgangi félagsins. Emil hefur verið fastamaður í liði Udinese og hefur átt góðu gengi að fagna með því en Udinese hafnaði í 13. sæti á nýafstöðnu tímabili.

„Ég var persónulega ánægður með tímabilið. Það urðu þjálfaraskipti og ég varð strax einn af hans mönnum og ég hef verið í stóru hlutverki. Hann hefur trú og traust á mér sem er frábært. Hann setti mig í nýja stöðu fyrir framan vörnina og þetta var mjög lærdómsríkt tímabil. Forráðamenn félagsins eru byrjaðir að ræða við mig um að gera nýjan samning og það er aldrei að vita nema að eitthvað gerist á næstu vikum. Ég er ánægður hjá Udinese og þeir eru ánægðir með mig,“ sagði Emil í samtali við mbl.is.

Emil, sem er 32 ára gamall er í landsliðshópnum sem mætir Króötum í undankeppni HM á Laugardalsvellinum á sunnudagskvöldið. Komi hann við sögu í þeim verður það hans 58. landsleikur en Emil lék sinn fyrsta leik í markalausu jafntefli gegn Ítölum í mars 2005.

„Eftir sigurinn á móti Kósóvó í mars þá vissum við hvað myndi bíða okkur á sumarkvöldi í júní á Laugardalsvelli. Ég vona innilega að við verðum allir í góðu standi, eigum frábæran dag en Króatarnir verði síðri. Ef þetta verður uppi á teningnum þá eigum við möguleika í vonandi frábærri umgjörð á Laugardalsvellinum. Ég vona en er ekki viss um að langt og strangt tímabil hjá mörgum af leikmönnum Króatíu komi eitthvað niður á þeim. Ég held samt að þetta trufli þá ekkert. Þetta eru gæða leikmenn sem eru komnir á hátt stig og eru miklir atvinnumenn,“ sagði Emil Hallfreðsson við mbl.is.

Emil með boltann á Laugardalsvellinum í dag.
Emil með boltann á Laugardalsvellinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Emil og félagar hans í íslenska landsliðinu hafa notað vikuna til að kortleggja króatíska liðið og spurður hvort hann hafi séð einhverja veikleika á því segir hann;

„Það er ekki mikið um veikleika í þeirra liði. Þetta er fótboltaleikur ellefu á móti ellefu. Með frábærum leik þá tel ég að við eigum alveg að geta landað sigri. Við erum líka með gott lið og með frábæran heimavöll. Okkur hefur ekki enn tekist að skora á móti Króötunum en ég er alveg viss um að við brjótum ísinn á sunnudaginn. Ég ætla næstum því að lofa því.“

Undirbý mig eins og ég sé að fara að spila

Reiknar þú með því að byrja inná?

„Það verður bara að koma í ljós. Ég undirbý mig eins og ég sé að fara að spila. Ég er virkilega góðu formi og mér hefur gengið vel með Udinese. Það er bara undir þjálfaranum komið hvort hann tefli mér fram í byrjunarliðinu eða ekki,“ sagði Emil Hallfreðsson, sem hefur verið í atvinnumennsku allar götur frá árinu 2005 þegar hann gekk í raðir Tottenham á Englandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert