Verður stríð þegar út á völlinn er komið

Birkir Már á Laugardalsvellinum í dag.
Birkir Már á Laugardalsvellinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hægri bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson leikur á sunnudagskvöldið 72. landsleikinn þegar Íslendingar etja kappi við ógnarsterkt lið Króata í undankeppni HM á Laugardalsvelli.

Birkir Már, sem er 33 ára gamall, lék sinn fyrsta landsleik fyrir rúmum tíu árum síðan gegn Liechtenstein á Laugardalsvellinum og hefur mörg undanfarin ár verið fastamaður í liðinu og hefur reynst traustur liðsmaður.

Mbl.is hitti Birki Má fyrir æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvellinum í hádeginu en Birkir eins og öll íslenska þjóðin bíður spennt eftir leiknum á móti Króatíu.

„Maður er búinn að bíða allt of lengi eftir þessum leik en nú er loksins að koma að þessu. Síðan við unnum Kósóvó erum við búnir að vera með þennan leik inni í hausnum á okkur og vitum alveg út í hvaða verkefni við erum að fara. Króatíska liðið er gríðarlega gott og það er alveg ljóst að við þurfum að skila 100% leik til að eiga möguleika á að vinna það og að Króatarnir verði ekki alveg upp á sitt besta. Það verða allir í okkar liði að eiga frábæran leik,“ sagði Birkir við mbl.is.

„Króatarnir eru með góða leikmenn í öllum stöðum og með menn sem geta gert út um leiki á eigin spýtur. En við erum klárir í að mæta þeim af fullum krafti. Laugardalsvöllurinn er orðin gryfja og ég man varla eftir því hvenær við töpuðum síðast leik þar. Vonandi er það ekkert að fara að breytast. Þetta góða gengi á heimavelli gefur okkur mjög mikið sjálfstraust í þennan leik á móti Króötunum. Við verðum bara að halda því áfram sem við höfum gert vel. Hlutirnir koma ekki að sjálfum sér. Við verðum að hafa mikið fyrir hlutunum. Við berum virðingu fyrir fyrir gæðum Króatana og við vitum hvað þeir geta en svo verður þetta bara stríð þegar inn á völlinn er komið,“ sagði Birkir Már.

Viðræður farnar af stað um nýjan samning

Birkir Már leikur með Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni ásamt markverðinum Ögmundi Kristinssyni og Arnóri Smárasyni en Birkir kom til sænska liðsins frá Brann í Noregi sem hann lék með frá 2008-2014.

„Það er búið að ganga betur á tímabilinu heldur en sérfræðingarnir spáðu fyrir tímabilið. Við erum búnir að fá fleiri stig en sumir þorðu að vona. Við erum nálægt þriðja sætinu og þegar við náum að bæta í hópinn í sumar þá vonast ég til að við færum okkur ofar á stigatöfluna,“ segir Birkir en eftir 12 umferðir er Hammarby í 7. sæti deildarinnar.

Samningur Birkis við Hammarby rennur út um áramótin.

„Það er lauslegar viðræður farnar á stað á milli mín og félagsins. Ég er til í að vera áfram hjá Hammarby en mun að sjálfsögðu hlusta ef það koma tilboð annars staðar frá. En Hammarby er samt fyrsti valkostur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert