„Fótboltinn er ekki fyrirsjáanlegur“

Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson mbl.is/Kristinn Magnússon

„Svona er fótboltinn og svona er lífið. Eins og lífið er fótboltinn ekki alltaf fyrirsjáanlegur,“ sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, eftir sigurinn sæta á Króötum á Laugardalsvelli í kvöld þegar hann ræddi við fjölmiðla á blaðamannafundi.

„Eðilega reiknuðu flestir með sigri Króata. Þeir eru með meiri reynslu, eru hærra á styrkleikalistanum og voru með markatöluna 11:1 fyrir þennan leik. Þeir höfðu því staðið sig gríðarlega vel í þessum riðli. Í þeirra liði eru mikil einstaklingsgæði og þeir voru auðvitað sigurstranglegri en við.  Samt unnum við. Þetta er ástæðan fyrir því að fótboltinn er vinsælasta íþrótt í heimi. Hann býður upp á óvænt úrslit. Í næsta leik snýst þetta við þegar við spilum við Finnland. Þá erum við liðið sem er ofar á styrkleikalistanum og erum með fleiri stig í riðlinum.  Einhverjir halda að sá leikur verði auðveldari fyrir Ísland en þannig verður það ekki.“ sagði Heimir og lagði áherslu á að væntingar verði ekki skrúfaðar upp þrátt fyrir mikilvægan sigur því enn séu fjórir leikir eftir. 

Heimir biðlaði til fjölmiðlamanna að styðja landsliðið í því að halda væntingum innan skynsamlegra marka. „Ég vil sjá að væntingar verði eðlilegar því allir fjórir leikirnir verða erfiðir og þeir verða erfiðari eftir því sem þeim fækkar. Vanmat er ein ástæða þess að lið  sem eru betri en andstæðingurinn tapa leikjum. Ég vil biðja ykkur um að hjálpa okkur að halda spennustiginu niðri því það er akkúrat það sem Ísland þarf á að halda í leikjunum sem eftir eru. Að við förum ekki fram úr okkur, reiknum ekki með einhverjum stigum sem gefnum fyrir fram og reikna ekki með skyldusigrum. Við skulum reyna að hafa væntingarnar í takti við raunveruleikann eins og hann kenndi okkur í dag.“

Heimir nefndi sérstaklega þátt stuðningsmanna íslenska liðsins.

„Alltaf þegar maður heldur að stuðningsmennirnir séu búnir að toppa sig þá verður stemningin alltaf aðeins betri í næsta leik. Ekki er annað en hægt að þakka fólki fyrir stuðninginn. Fólkinu sem mætir í bláu, syngur með þjóðsöngnum og styður okkur allan leiktímann. Frábært fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert