„Stór sigur fyrir okkur“

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari.
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsþjálfarinn, Heimir Hallgrímsson, var afskaplega ánægður með sína menn eftir sigurinn sæta á Króötum á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Heimir hélt þó aftur af tilfinningunum og var stundum alvarlegur í bragði.

Staða Íslands í undanriðlinum kallar auðvitað á miklar væntingar og spennan verður mikil í síðsumars og í haust.

„Mér finnst erfitt að taka einhvern einn leikmann út eftir þessa frammistöu en maður horfir kannski til þeirra sem koma nýir inn í byrjunarliðið. Mér fannst Emil mjög góður á miðjunni. Hann róaði leik okkar niður og var sterkur að vinna boltann. Ég held að allir hafi átt góðan leik og skipulagið hélt nánast 100%. Þetta er stór sigur fyrir okkur og setur framhaldið í skemmtilegt samhengi.

Ég get ekki hrósað strákunum nóg fyrir þennan leik því mér fannst þetta vera frábær frammistaða,“ sagði Heimir og hann rökstuddi vel hvers vegna hann valdi Hörð Björgvin Magnússon í bakvarðastöðuna vinstra megin að þessu sinni. Þar hefur Ari Freyr Skúlason oftast leikið síðustu árin en Hörður þakkaði fyrir sig með því að skora eina mark leiksins með skalla.

„Kalinic er mjög sterkur í loftinu og svo eru þeir einnig með Mandzukic sem hleypur inn í fjærsvæðið. Ari er mun lágvaxnari heldur en Hörður og það var aðalástæðan fyrir valinu. Þegar við erum ekki með Björn Bergmann og Jón Daða í byrjunarliðinu þá vantar okkur svolítið hæð vegna þess að við leggjum mikið upp úr föstum leikatriðum. Hörður er líklega einn besti skallamaðurinn okkar ásamt Kára og Ragnari. Bæði í sókn og vörn hafði því hæðin sitt að segja en auk þess er Hörður alltaf að verða betri og betri. Hann er ekki bakvörður að upplagi en er alltaf að spila þessa stöðu betur. Við vorum sannfærðir um að þetta væri rétt útspil,“ útskýrði Heimir.

Sjá allt um leik Íslands og Króatíu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert