Ótrúlega bitlausir í sókninni

Ólafur Karl Finsen og Kwame Quee í baráttunni í kvöld. …
Ólafur Karl Finsen og Kwame Quee í baráttunni í kvöld. Heiðar Ægisson fylgist með. mbl.is/Alfons

„Við erum að spila mjög illa þessa dagana og gefa ódýr mörk. Við þurfum að finna lausnir strax. Þrjú töp í röð er allt of mikið,“ sagði Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, eftir 2:1-tapið gegn Víkingi Ó. í Ólafsvík í kvöld, í 8. umferð Pepsideildarinnar í knattspyrnu.

„Þetta gekk mjög illa. Við fengum á okkur mark snemma og vörðumst illa í því atviki, sem var það fyrsta held ég þar sem þeir komust yfir miðju, og það er mjög mikill skellur. Eftir tvö töp í röð ætluðum við eðlilega að koma mjög grimmir í þennan leik og hápressa á þá, en fengum þessa helvíti miklu vatnsgusu í andlitið í byrjun. Við reyndum eitthvað áfram í fyrri hálfleik en gáfum svo annað mark strax í byrjun seinni,“ sagði Baldur.

Stjarnan byrjaði tímabilið af miklum krafti en hefur nú tapað þremur leikjum í röð. Má liðið svona illa við því að byrjunarliðsmenn meiðist, eins og gerst hefur að undanförnu?

„Það lítur ekki út fyrir það. Hópurinn á að ráða við það. Þetta snýst um eitthvað meira en hæfileika. Ég hef engin svör núna. Við höfum bara ekki verið að spila vel,“ sagði Baldur.

Þorsteinn Már Ragnarsson lagði upp bæði mörk Víkinga, fyrir Kwame Quee og Guðmund Stein Hafsteinsson, en þeir Þorsteinn og Guðmundur léku saman í fremstu víglínu.

„Gummi og Steini refsuðu okkur illa í dag. Þeir voru sterkir þarna frammi og við réðum ekki við þá. Það gerði gæfumuninn. Svo vorum við ótrúlega bitlausir frammi, eins og við höfum verið í síðustu leikjum gegn Víkingi Reykjavík og FH. Þessi 15 mörk eða eitthvað sem við skoruðum í fyrstu leikjunum... þetta er bara búið núna og ég veit ekki af hverju,“ sagði Baldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert