Gríðarlegur munur á greiðslum efstu deilda

Dómarinn Gunnar Jarl Jónsson stendur hér í ströngu.
Dómarinn Gunnar Jarl Jónsson stendur hér í ströngu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það vakti gríðarlega athygli fyrir rúmum fjórum árum þegar Morgunblaðið greindi frá því hversu miklu munar á því hvað knattspyrnudómarar á Íslandi fá greitt fyrir að dæma í efstu deildum karla og kvenna. Samkvæmt úttekt blaðsins í maí 2013 var greiðsla til aðaldómara fyrir hvern leik í efstu deild karla 156% hærri en í efstu deild kvenna. Var það rökstutt með þeim svörum að gerðar væru meiri kröfur í leikjum í karladeildinni.

Umræðan fór aftur á flug eftir síðasta tímabil þegar Félag deildadómara, FD, sagði upp kjarasamningi sínum við KSÍ. Við tóku langar samningaviðræður og skrifað var undir nýjan skammtímasamning 21. mars sem gildir til 1. desember. Þar var samið um að greiddar væru 36.500 krónur til aðaldómara fyrir leik í Pepsi-deild karla, en 14.000 krónur fyrir leik í Pepsi-deild kvenna.

Mikill munur er á hækkun greiðslna til dómara í efstu …
Mikill munur er á hækkun greiðslna til dómara í efstu deildum karla og kvenna á milli ára. Morgunblaðið

Skiptir þá engu hvort kynið sé að dæma, heldur liggur munurinn í því að aðaldómarar í leikjum efstu deildar karla fá 2,6 sinnum hærri greiðslur fyrir hvern leik en í efstu deild kvenna. Er það fyrir utan útlagðan kostnað vegna undirbúnings fyrir hvern leik sem KSÍ greiðir líka og er 11.060 krónur í efstu deild karla en 2.500 krónur í efstu deild kvenna.

Greiðslur hafa hækkað frá síðasta ári eftir nýjan kjarasamning FD við KSÍ, en bilið á milli greiðslna fyrir leiki í karla- og kvennaflokki hefur ekki brúast. Greiðslur til aðaldómara í efstu deild karla hækkuðu um 14,4% frá því í fyrra, eða um 4.600 krónur. Í efstu deild kvenna nemur hækkunin hins vegar 6,5% eða 850 krónum.

Efsta deild kvenna er í sama launaflokki og 2. deild karla

Eins og tíðkast hefur flokkar KSÍ leiki í fimm flokka eftir erfiðleikastigi og er það samkvæmt mati dómaranefndar KSÍ í samræmi við flokkun á alþjóðavettvangi. Samkvæmt þeirri flokkun eru leikir í efstu deild karla í 1. flokki en leikir í efstu deild kvenna í 3. flokki. Í þeim sama flokki eru til dæmis leikir í 2. deild karla.

„Munurinn í launum felst í erfiðleikagráðu leiksins; pressunni og umfjölluninni en líka tekjunum af deildinni sjálfri. Þetta er það sem gildir þegar samið er um launatölur,“ sagði Þorvaldur Árnason, formaður Félags deildadómara. Hann áréttaði það sem kom fram hér að framan að ekki væri munur á launum dómara eftir kyni þeirra, heldur væri munurinn milli leikja.

Ítarlega er fjallað um launamál dómara og greiðslur á milli efstu deilda karla og kvenna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert