Grindavík á toppi deildarinnar

Hart barist í leik Grindavíkur og KA í dag.
Hart barist í leik Grindavíkur og KA í dag. Ljósmynd/Víkurfréttir

Grindavík tyllti sér á topp úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar, með því að leggja KA að velli, 2:1, þegar liðin mættust í 10. umferð deildarinnar, á Grindavíkurvelli í dag.

KA byrjaði raunar leikinn betur, en Hallgrímur Mar Steingrímsson kom gestunum að norðan yfir með stórglæsilegu marki. Hallgrímur Mar skoraði með hnitmiðuðu bylmingsskoti sem hafnaði í samskeytunum.

Andri Rúnar Bjarnason fékk skömmu síðar kjörið tækifæri til þess að jafna metin, en hann brenndi af vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur á 21. mínútu leiksins.

Marínó Alex Helgason sem lék sinn fyrsta deildarleik fyrir Grindavík í sumar varð liðinu gulls ígildi í seinni hálfleik. Marínó Axel jafnaði leikinn á 70. mínútu leiksins og hann nældi síðan tíu mínútum síðar í vítaspyrnuna sem Andri Rúnar skoraði úr og tryggði Grindavík sigurinn.

Andri Rúnar skoraði þarna sitt 10. deildarmark í sumar, en hann er markahæsti leikmaður deildarinnar. Andri Rúnar hefur skorað einu marki meira en Steven Lennon, leikmaður FH, sem er næstur honum á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar.

Grindavík er á toppi deildarinnar með 21 stig, en liðið er einu stigi á undan Val sem getur endurheimt toppsætið með jafntefli eða sigri gegn Stjörnunni í kvöld.

Andri Rúnar Bjarnason reynir að skalla að marki KA í …
Andri Rúnar Bjarnason reynir að skalla að marki KA í dag. Ljósmynd/Óskar Birgisson
Grindavík 2:1 KA opna loka
90. mín. Daníel Hafsteinsson (KA) á skalla sem fer framhjá Boltinn lekur rétt framhjá marki Grindavíkur. Þarna skall hurð nærri hælum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert