KR-ingar höfðu betur í markaleik

KR vann Víking Ólafsvík 4:2 í 13. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Vesturbænum í kvöld. KR er með 20 stig í 5. sæti en Ólafsvíkingar með 13 stig í 10. sæti.

KR-ingar hófu leikinn af miklum krafti. Dönsku sóknarmennirnir, Thobias Thomsen og André Bjerregaard, fengu sitt hvort góða færið og samlandi þeirra, Kennie Chopart þrumaði í stöngina á marki Ólafsvíkinga, áður en KR skoraði fyrsta mark leiksins.

Aleix Egea braut klaufalega á Thomsen innan vítateigs á 21. mínútu og vítaspyrna dæmd. Thomsen tók spyrnuna sjálfur og skoraði af öryggi.

Heimamenn héldu áfram að sækja og sex mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks bættu þeir við marki. Varnarjaxlinn Aron Bjarki Jósepsson skallaði boltann í markið eftir sendingu Finns Orra Margeirssonar frá vinstri og staðan 2:0 fyrir KR að loknum fyrri hálfleik.

KR-ingar hófu seinni hálfleikinn af svipuðum krafti og þann fyrri. Það var því frekar óvænt og gegn gangi leiksins þegar Kwame Quee minnkaði muninn fyrir gestina þegar 30 mínútur voru eftir af leiknum. Hann náði boltanum af harðfylgi vinstra megin í vítateignum eftir langa sendingu og skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Við markið hresstust gestirnir og þeir jöfnuðu þegar 15 mínútur voru eftir. Guðmundur Steinn Hafsteinsson fékk þá boltann, lék á varnarmenn KR og skoraði með skoti í stöng og inn.

KR-ingar vöknuðu aftur til lífsins við jöfnunarmarkið og Bjerregaard kom heimamönnum yfir þegar tæpar tíu mínútur voru eftir með þrumuskoti utan teigs. Óskar Örn Hauksson skoraði afskaplega snoturt mark þegar fimm mínútur voru eftir og gulltryggði sigur Vesturbæinga í stórskemmtilegum leik.

KR 4:2 Víkingur Ó. opna loka
90. mín. Finnur Orri Margeirsson (KR) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert