Gaman í þessi örfáu skipti sem þetta gerist

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH.
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH. mbl.is/Árni Sæberg

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, var ánægður með að liðið skyldi endanlega tryggja sér sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar á næsta ári í dag, þegar liðið gerði 1:1-jafntefli við Víking Ó. í Ólafsvík, í næstsíðustu umferð Pepsi-deildarinnar.

Aðstæður voru erfiðar í Ólafsvík í dag en pollar voru víða um völlinn og talsvert forarsvað á miðjunni og við vítateiga. Davíð var þó ánægður með að leikurinn skyldi fara fram:

„Ég held að miðað við spána og allt þá hefði völlurinn ekkert verið betri á  morgun. Mér fannst bara fínt að klára þetta af. Auðvitað voru þetta krefjandi aðstæður en það var hægt að spila fótbolta hérna. Þeir unnu þrekvirki hér, forráðamenn Víkings og FH, fyrir leik við að skófla eins miklu vatni af vellinum og hægt var. Það var bara skemmtilegt að upplifa þetta, að spila á svona blautum velli,“ sagði Davíð. Hann tók undir að þessar aðstæður sköpuðu þó jafnframt meiri hættu á að upp úr syði vegna glæfralegra tæklinga:

„Það er svo mikil hætta á því að koma örlítið of seint inn í tæklingu, eða renna þegar maður ætlar bara að ná boltanum, og þá verða til svona aukapústrar. Það var líf og fjör í þessu enda Víkingarnir að berjast fyrir lífi sínu og við að berjast við að klára þetta Evrópusæti.“

Víkingur var 1:0 yfir eftir fyrri hálfleik en það var með nokkrum ólíkindum að FH skyldi ekki koma boltanum oftar í markið en úr vítaspyrnunni sem Steven Lennon skoraði úr um miðjan seinni hálfleik:

Hefðum átt að skora tvö eða þrjú í fyrri hálfleik

„Við fengum urmul af færum og hefðum að öllu eðlilegu átt að vera búnir að skora tvö eða þrjú mörk í fyrri hálfleik. Við vorum staðráðnir í því í hálfleik, og vissir um að það væru góðir möguleikar á að sækja líka gegn vindinum í seinni hálfleik. Það varð á. Við fundum fleiri opnanir og komumst betur á bakvið þá en í fyrri hálfleik, og það endaði með því að við náðum þessu jöfnunarmarki og vorum nálægt því að klára dæmið,“ sagði Davíð.

Fyrirliðinn og fleiri í FH-liðinu fórnuðu höndum þegar skammt var til leiksloka, þegar Þorvaldur Árnason sýndi Bergsveini Ólafssyni rautt spjald. Þorvaldur hafði gefið honum gult spjald fyrir brot og virtist halda að þetta væri önnur áminning Bergsveins í leiknum:

„Hann skráði Begga greinilega niður fyrir eitthvað brot sem einhver annar hafði framið. Hann var sem betur fer með góða aðstoðarmenn, og Þorvaldur er góður dómari, svo hann tók að sjálfsögðu til greina okkar röksemdafærslu og leiðrétti þetta,“ sagði Davíð, og hló aðspurður hvort ekki væri ánægjulegt að sjá það bera árangur að deila við dómarann:

„Jú, það er gaman í þessi örfáu skipti sem það gerist!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert